Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, sem eru fjölmennustu félagasamtök Íslands á sviði umhverfismála, var í ár haldinn á Lýsuhóli á sunnanverðu Snæfellsnesi í boði Skógræktarfélags Heiðsynninga. Sóttu fundinn á þriðja hundrað manna, víðs vegar að af landinu. Er þetta í sjötugasta sinn sem aðalfundur samtakanna er haldinn, en félagið fagnaði á árinu 75 ára afmæli sínu. Nánar má lesa um fundinn HÉR, á vef Skógræktarfélags Íslands.

Mynd: Skörungurinn Margrét Guðjónsdóttir frá Dalsmynni, skáld og formaður Skógræktarfélags Heiðsynninga, afhjúpar skjöld þar sem landgræðsluskóginum norðan Laugagerðisskóla er gefið nafnið "Margrétarlundur", henni til heiðurs. 

Á fundinum voru samþykktar eftirfarandi níu ályktanir:

Ályktun 1.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Lýsuhóli dagana 27.-28. ágúst 2005, vill koma á framfæri þakklæti til Vegagerðarinnar vegna uppbyggingar bílastæða við Opna skóga. Þá vill fundurinn hvetja til þess að stofnaður verði samráðshópur með Vegagerðinni í því skyni að unnin verði aðgerðaáætlun um tengingu þjóðvega og bílastæða að skógarreitum skógræktarfélaganna.

Ályktun 2.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Lýsuhóli dagana 27.-28. ágúst 2005, hvetur til þess að skoðað verði, með þar til bærum aðilum, slökkviliðum, hjálparsveitum o.fl. hvernig brunavörnum verði best fyrir komið og með hvaða hætti sé hægt að bregðast við eða hvernig staðið verði að forvörnum til þess að ekki komi til stórbruna á skógarsvæðum.

Ályktun 3.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Lýsuhóli dagana 27.-28. ágúst 2005, beinir því til Alþingis að setja með lögum ákvæði um almenna vörsluskyldu búfjár, sem geymdu þó heimildir til undanþága, t.d. af landfræðilegum ástæðum.

Ályktun 4.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Lýsuhóli dagana 27.-28. ágúst 2005, fagnar vandaðri úttekt Ríkisendurskoðunar, frá því í desember 2004, á framkvæmd skógræktarlaga. Fundurinn samþykkir að beina því til Alþingis og Landbúnaðarráðuneytis að hraða endurskoðun skógræktarlaga í samræmi við niðurstöður skýrslunnar. Mikilvægt er að í nýjum lögum verði styrkt starfsumhverfi skógræktarfélaganna og viðurkennt hlutverk þeirra í skógrækt í almannaþágu. Þar verði einnig bætt inn nýjum lagabálki um skógrækt í sveitarfélögum.

Ályktun 5.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Lýsuhóli dagana 27.-28. ágúst 2005, beinir því til stjórnar Skógræktarfélag Íslands að félagið aðstoði skógræktarfélög vegna samskipta við sveitarfélög eða aðra landeigendur um ræktuð svæði skógræktarfélaganna.

Ályktun 6.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Lýsuhóli dagana 27.-28. ágúst 2005, lýsir fullum stuðningi við framkomnar hugmyndir um ?Hekluskóga?, sem er verkefni um ræktun kjarr- og skóglendis á Heklusvæðinu, til varnar gegn sandfoki og landeyðingu.

Ályktun 7.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Lýsuhóli dagana 27.-28. ágúst 2005, samþykkir að beina því til Skógræktarfélags Íslands og Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá að hafin verði rannsókn á skógrækt til útivistar með það að markmiði að bæta þjónustu við almenning á skógræktarsvæðum.

Ályktun 8.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Lýsuhóli dagana 27.-28. ágúst 2005, beinir því til allra, sem stunda skógrækt á Íslandi að þeir vinni eftir skógræktaráætlun, þar sem fullt tillit er tekið til allra umhverfisþátta og þá sérstaklega til landslagshönnunar.

Ályktun 9.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Lýsuhóli dagana 27.-28. ágúst 2005, hvetur til þess að Skógræktarfélag Íslands beiti sér fyrir því að stórbæta aðgengi og umhirðu skógarsvæða svo þau verði aðgengileg til útivistar og afþreyingar.