Síðustu tvær vikur hefur hópur tuttugu sjálfboðaliða frá ýmsum þjóðlöndum Evrópu starfað við endurbætur á göngustígnum yfir Fimmvörðuháls. Er hópurinn kominn hér til lands á vegum samtakanna Veraldarvina (World friends). Stígurinn yfir Fimmvörðuháls er mjög fjölfarinn og hefur látið á sjá sér í lagi vegna úrrennslis. Hefur runnið út stígnum sér í lagi þar sem bratt er og jarðvegur djúpur. Sjálfboðaliðarnir hafa gert þrep í stíginn til þess að beina vatni frá honum, auk þess að bæta möl og grjóti í hann þar sem hann er niðurgrafinn. Standa vonir til að þetta muni duga til að stöðva úrrennslið. Nýr hópur sjálfboðaliða kemur til landsins í vikunni og mun sá hópur starfa við endurbætur og viðhald stíga í Langadal og Húsadal. Nokkrir aðilar auk Veraldarvina hafa stutt verkefnið og eru það: Ferðafélagið Útivist, Umhverfisstofnun, Kynnisferðir, Guðmundur Tyrfingsson, Ferðafélag Íslands og Ferðamálaráð Íslands. Skógræktin þakkar þessum aðilum fyrir stuðninginn.