Allt að 250 ársverk í skógrækt á Austurlandi á komandi árum

“Skógræktin er okkar stóriðja og það er mikilvægt að við höldum því forystuhlutverki sem við höfum í þessari atrvinnugrein,” segir Skúli Björnsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, en bæjarráð hefur sent frá sér bókun um mikilvægi  starfsemi Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum. Tilefni bókunarinnar er umræða um hugmyndir landbúnaðarráðherra varðandi samruna Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins.
“Bæjarráð vill að stofnunin verði efld í því nýja hlutverki sem hún hefur fengið sem ráðgjafar og rannsóknarstofnun. Skógrækt er mjög mikilvægur atvinnuvegur víða á Íslandi og þá sérstaklega á Héraði, en gert er ráð fyrir að ársverk vegna skógartengdra verkefna á Austurlandi geti numið allt að 250 á næstu árum. Ennfremur er horft til þess að Skógrækt ríkisins verði ein af stoðum Þekkingarseturs á Egilsstöðum og þar með Þekkingarnets Austurlands, þar sem rannsóknir og fræðsla er alltaf að verða stærri þáttur í starfsemi stofnunarinnar,” segir í bókun bæjarráðs.
Skúli bendir á  að  á komandi árum þurfi að huga vel að uppbyggingu vinnslu úr því hráefni sem til fellur með gisjun skóga á Austurlandi.
“Innan fárra ára þarf að grisja um 500 hektara af skógi árlega á svæðinu og má gera ráð fyrir að til falli um 20 þúsund rúmmetrar til vinnslu. Núna eru  í kringum 70-80 störf í skógrækt á Austurlandi en við erum að gera ráð fyrir að þau geti allt að því þrefaldast í framtíðinni, sem sýnir um hversu mikið atvinnuspursmál er að ræða. Við getum sagt að þetta sé atvinnutækifæri næstu kynslóðar en engu að síður nálgast þetta mjög hratt. Nú þegar hefur skógræktin skipt miklu fyrir fólk í dreifbýli og gert mörgum kleift að sitja sínar jarðir áfram, þrátt fyrir breytingar í hefðbundnum landbúnaði. Við viljum þess vegna þrýsta á um að vel verði haldið á málum á komandi árum af hálfu stjórnvalda og tryggja forystu okkar hér á Austurlandi í skógrækt,” segir Skúli Björnsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs.

Frétt tekin af  www.egilsstadir.is