2. september 2004 var TRÉ ÁRSINS 2004 útnefnt við hátíðlega athöfn.

TRÉ ÁRSINS 2004 er evrópulerki (Larix decidua) við Hafnargötu á Seyðisfirði.

Tréð stendur við reisulegt aldargamalt timburhús sem byggt var fyrir tilstilli Wathne-ættarinnar, sem setti mikinn svip á athafnalíf á Seyðisfirði um árabil á ofanverðri nítjándu öld og öndverðri þeirri tuttugustu.

Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri, telur tréð geta verið um 90 ára gamalt og hefur það eftir núverandi skógræktarstjóra að það eigi sér hugsanlega bróður eða systur í Hallormsstaðaskógi. Fræ- og plöntusendingar til Hallormsstaðar fóru um Seyðisfjarðarhöfn á þessum tíma.

Líklega verður þeirri spurningu aldrei svarað, með fullri vissu, hver gróðursetti TRÉ ÁRSINS 2004 eða hvaðan það kom.

Tréð var nú mælt. Reyndist hæð þess vera 11,66 m, lengd lengstu greina nær sú sama og hæð þess eða 11,60 m, ummál stofnsins við jörð reyndist 3 metrar. Þá var tekið sýni úr trénu til aldursgreiningar. Skv fyrstu skoðun gæti tréð verið um 90 ára gamalt en sýnið þarfnast frekari rannsókna áður en það verður staðfest.

Skógræktarfélag Íslands velur TRÉ ÁRSINS og er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt.

Sjá nánar á vef Skógræktarfélag Íslands