Nýjasta tækni gerir kleift að átta sig betur á í hvaða átt við stefnum
Tækni sem byggð er á landupplýsingakerfum og kortakerfi Google gerir okkur til dæmis kleift að sjá hvar skógar hafa sótt fram í heiminum og hvar þeim hefur hnignað frá aldamótum. Auðvelt er að uppfæra hratt þær breytingar sem verða á skóglendi og þar með að bregðast hratt við þeim. Þetta er öflugt tæki í baráttunni fyrir aukinni skógrækt og verndun skóga. Stjórnvöld, landeigendur, náttúruverndarfólk, allt fólk getur nú fengið upplýsingar á nokkrum sekúndum sem hefði tekið langan tíma að afla áður. Þess vegna er hægt að bregðast hratt við breytingum, til dæmis ólöglegu skógarhöggi eða skógareyðingu af öðrum völdum.
Upplýsingar hefur skort um þessi efni fram undir þetta jafnvel þótt öllum sé ljóst hversu mikilvæg skógarvistkerfi jarðarinnar eru, meðal annars í samhenginu við loftslagsbreytingar. Í grein sem birtist í tímaritinu Science í ágúst 2013 segir frá því að gögn frá gervitunglum hafi verið notuð til að kortleggja skógareyðingu um allan heim með upplausn upp á þrjátíu metra. Miðstöð þessa starfs var við Maryland-háskóla í Bandaríkjunum. Kortakerfi Google-netrisans gerði þetta kleift en vefsjáin er gagnvirk og allir geta komið nýjum upplýsingum á framfæri sem settar eru inn í gagnagrunninn. Að verkefninu stendur ásamt Google verkefni sem heitir Global Forest Watch og er innan vébanda World Resources Institute, alþjóðlegs rannsóknarvettvangs. Á þeim vettvangi er starfað með stjórnvöldum í löndum heims að því að stuðla að heilbrigðu og sjálfbæru umhverfi fyrir mannkynið.
Ef litið er til áranna 2000 til 2012 eyddust skógar í heiminum á um 2,3 milljónum ferkílómetra en nýir skógar uxu upp á 0,8 milljónum ferkílómetra. Raunverulegt tap skóglendis á jarðarkringlunni nemur því einni og hálfri milljón ferkílómetra á þessu árabili.
Hitabeltið var eina svæðið í heiminum þar sem þróunin var regluleg. Þar jókst skógareyðing um 2.101 ferkílómetra á hverju ári. Og jafnvel þótt Brasilíumönnum hafi á þessum tíma tekist að draga verulega úr skógareyðingu hjá sér jókst eyðingin aftur á móti í Indónesíu, Malasíu, Paragvæ, Bólivíu, Sambíu, Angóla og víðar í hitabeltislöndum. Miklar breytingar sjást á skógum í bæði heittempraða beltinu og barrskógabeltinu, bæði vegna skógræktar og skógarhöggs en líka vegna skógarelda. Þessi alheims-skógarvefsjá er nýtt og gagnlegt verkfæri til að átta sig á þróuninni, ekki síst fyrir stjórnvöld í löndum heims til að sjá þróunina svart á hvítu ef þannig má að orði komast.
Athyglisvert er að í regnskógum hitabeltisins mælist bæði mesta skógareyðingin og mesti nývöxtur skógar með skógrækt eða náttúrlegum vexti. En skógareyðingin er því miður mun meiri en nývöxturinn.
Með nýju alheims-skógarvefsjánni er, sem fyrr er ritað, komið gagnlegt tæki fyrir stjórnvöld, landeigendur, náttúruverndarfólk og allt annað fólk sem vill berjast gegn skógareyðingu og fyrir skógrækt í heiminum. Með þessu tæki er hægt að bregðast miklu hraðar við ógnum sem steðja að skógum heimsins, vekja á þeim athygli og stuðla að því að brugðist verði við. Vonandi verður þetta tæki eitt af því sem snýr mannkyni af braut skógareyðingar og á braut vaxandi skóglendis um allan heiminn.
Greinina í tímaritinu Science má nálgast hér en aðgangsorð þarf ef fólk vill sjá meira en samantekt og útdrátt:
Umfjöllun um greinina er að finna á Mongabay.com, einum vinsælasta fréttavef heims um vísindi og umhverfisvernd.
Þar má líka sjá fróðlegt myndband frá Global Forest Watch sem lýsir þessu öllu saman mjög vel.