Ung skógarkona spreytir sig á því að kljúfa eldivið með kjullu og öxi. Eygló Rúnarsdóttir leiðbeinir…
Ung skógarkona spreytir sig á því að kljúfa eldivið með kjullu og öxi. Eygló Rúnarsdóttir leiðbeinir og heldur á exinni. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Mikil skógarstemmning var á hinum árlegu Skógarleikum í Heiðmörk sem fram fóru laugardaginn 7. júlí. Eins og fyrri ár bauð Skógræktarfélag Reykjavíkur til ævintýralegrar stemningar í Furulundi þar sem töfrar skógarins fengu að njóta sín. Keppnin þar sem skógarhöggsmenn leiða saman hesta sína og keppa í hefðbundnum skógarhöggsgreinum vakti sem fyrr mikla athygli. Keppt var í axarkasti, sporaklifri, bolahöggi og afkvistun trjábola svo nokkuð sé nefnt.

Gestum á öllum aldri er á Skógarleikunum boðið að spreyta sig í tálgun úr ferskum við beint úr skóginum undir leiðsögn tálgumeistara. Félagið leggur mikið upp úr því að sýna skóginn í sinni fjölbreyttustu mynd og í ár var sýnt hvernig hægt er að náttúrulita efni með hráefni úr skóginum.

Að sjálfsögðu var grillað snúrubrauð yfir varðeldi og rjúkandi ketilkaffi var hitaðí lundinum. Skógræktarfélagið bauð líka til grillveislu og talsverða athygli vakti teepee-tjald sem að vanda var reist til að skapa seiðandi stemmningu.

Keppt var í mjög nýstárlegum keppnisgreinum sem varla sjást annars staðar. Úrslit í keppnisgreinum á Skógarleikunum urðu á þessa leið:

  • Frisbí: Bjarki Þór Kjartansson
  • Eldiviður: Amets Gardeazabal
  • Bolarúll: Albert Skarphéðinsson og Bjarki Þór Kjartansson
  • Nákvæmnisfelling: Albert Skarphéðinsson
  • Afkvistun: Amets Gardeazabal
  • Sporaklifur: Orri Freyr Finnbogason
  • Axarkast: Orri Freyr Finnbogason

Keppnisstjóri á Skógarleikunum var Gústaf Jarl Viðarsson en Böðvar Guðmundsson dæmdi keppendur og Björn Bjarndal Jónsson kynnti. Framkvæmdastjóri Skógarleika er Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.

Meðfylgjandi myndir tók Hreinn Óskarsson á Skógarleikunum, nema myndina af börnunum að vefa úr lúpínu og myndina af axarkastspjaldinu. Þær tók Guðfinna Mjögll Magnúsdóttir. Myndirnar segja meira en mörg orð.

Texti: Pétur Halldórsson