Grein í Vikudegi um nýja skýrslu Skógræktar ríkisins

Hagkvæmt virðist að koma upp fjarvarmaveitu í Grímsey með því að nota íslenskan trjávið sem orkugjafa auk afgangsvarma frá díselrafstöð eyjarinnar. Nægur efniviður er í norðlenskum skógum og þetta gæti bæði lækkað orkukostnað Grímseyinga og fært þeim þau auknu lífsgæði sem fylgja hitaveitu. Grein þessi birtist í Vikudegi á Akureyri 9. janúar 2013.

Skógrækt ríkisins, Norðurlandsskógar, Skógræktarfélag Eyfirðinga og Akureyrarbær fengu árið 2011 styrk úr Orkusjóði til að kanna hvort hagkvæmt væri að koma upp viðarkyndistöð í Grímsey svo Grímseyingar gætu hætt að nota olíu til kyndingar. Eftir því sem skógarnir vaxa upp kemur meira úr þeim af grisjunarviði sem auðvelt er að nýta til brennslu. Með því að nýta innlendan orkugjafa má spara gjaldeyri, draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og jafnvel lækka orkukostnað íbúa í eynni. Framboð á íslenskum trjáviði eykst stöðugt og verkefni sem þetta skapar störf við skógarhögg og viðarvinnslu. Í lok nýliðins árs kom út skýrsla hjá Skógrækt ríkisins um hagkvæmni þess að kynda upp byggðina í Grímsey með trjáviði. Höfundur skýrslunnar er Rúnar Ísleifsson skógræktarráðunautur.

Mestallur trjáviður sem seldur er úr norðlenskum skógum er fluttur suður í Hvalfjörð þar sem hann er nýttur sem kolefnisgjafi í járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Lítill markaður er fyrir viðinn norðanlands en það myndi breytast nokkuð ef hluti hans yrði nýttur sem orkugjafi í Grímsey. Öll hús í eynni eru kynt með olíu og til þess eru á hverju ári notaðir um 170.000 lítrar af olíu.

Nóg til af eldsneyti í skógunum
Orkugjafinn verður grisjunarviður, aðallega úr fyrstu grisjunum. Hagkvæmast þykir að nota viðarkurl sem fengið er með því að þurrka trjáboli og kurla þá í sekki eða gáma. Kurlið yrði aðallega framleitt úr lerki og stafafuru en einnig úr öðrum trjátegundum sem til fellur viður af, svo sem rauðgreni og ösp. Eftir grisjun eru trjábolirnir látnir standa í stórum stæðum í eitt til tvö sumur þar til rakastigið í viðnum er komið niður í um 30 prósent. Síðan eru þeir kurlaðir og þeim brennt í viðarkyndistöð sem reist yrði í Grímsey. Í stöðinni yrði líka olíuketill til vara ef eitthvað kemur upp á í viðarbrennslunni.

Áætlað er að í skógum Skógræktar ríkisins á Norðurlandi geti næstu tíu árin fallið til við grisjun a.m.k. 1.250 rúmmetrar af föstu viðarefni á hverju ári. Í reitum Skógræktarfélags Eyfirðinga þyrfti að grisja um 1.400 rúmmetra og gert er ráð fyrir að um þúsund rúmmetrar geti fallið til við grisjun hjá skógarbændum og öðrum skógareigendum norðanlands. Samanlagt mætti því grisja á hverju ári um 90 hektara skógar að meðaltali og raunhæft er talið að þannig gætu fallið til um 3.500 rúmmetrar af viði árlega. Þetta er miklu meira en nóg til að kynda upp húsin í Grímsey því til þess er talið þurfa um 650 rúmmetra af föstum viði.

Ný atvinnugrein
Eftir því sem skógarnir vaxa upp eykst vinna við að grisja þá og nú er smám saman að verða til ný starfstétt hérlendis, skógarhöggsmenn. Enn er þó starfsöryggi þeirra ekki mjög tryggt. Benjamín Davíðsson er ungur skógfræðingur í Eyjafjarðarsveit sem er að hasla sér völl sem skógarhöggsmaður. Hann segir að til að hægt sé að stofna fyrirtæki um þessa starfsemi þurfi að vera verkefni fyrir starfsfólkið allt árið. Þegar ekki sé hægt að vinna í skóginum, til dæmis vegna fannfergis eða bleytu, verði að vera hægt að sinna öðrum verkum, til dæmis ýmiss konar úrvinnslu úr skógarafurðum. Eftir því sem greinin þroskast segir Benjamín að hægt verði að vinna að ýmiss konar framleiðslu með grisjunar- og skógarhöggsstarfinu. Þá megi koma upp sögunarmyllum og framleiða borðvið, staura, kurl undir búpening og fleira og fleira þannig að starfsemin verði samfelld allt árið.

Hitaveita
Í Grímsey eru 30 íbúðarhús og að auki tíu hús með atvinnurekstri. Til að kynda þetta húsnæði er áætlað að þurfi um 500 kílóvatta afl og að auki 100 kílóvött til að hita upp skólann og sundlaugina. Orkuþörfin er metin 1.800-2.000 megavattsstundir á ári. Verkfræðistofa Norðurlands hefur gert úttekt á því hvað uppsetning hitaveitukerfis með viðarkyndistöð í Grímsey myndi kosta. Gert er ráð fyrir hringrásarkerfi þar sem sama vatnið yrði hitað upp aftur og aftur en í hverju húsi yrði varmaskiptir til að hita upp neysluvatn. Stofnkostnaður við slíka hitaveitu í Grímsey er áætlaður um 130 milljónir króna en frá dregst eingreiðsla frá hinu opinbera og heimlagnargjöld þannig að þetta er fjárfesting upp á um 85 milljónir. Í Grímsey er rafmagn framleitt með díselrafstöð og gert er ráð fyrir að svo verði áfram en hitaveitan nýti afgangsvarmann frá stöðinni sem er umtalsverður, um 700 megavattsstundir á ári.

Ríkissjóður niðurgreiðir olíukostnað til Grímseyinga um 8 milljónir króna á ári. Nú kostar 17,8 krónur að framleiða hverja kílóvattsstund með olíu en þeir notendur sem rétt eiga á niðurgreiðslum borga um 7,1 krónu fyrir kílóvattsstundina sem er sambærilegt verð og á niðurgreiddri rafmagnskyndingu. Í verkefnisskýrslunni, sem kom út í desember, er áætlað að viðarkyndistöð með fjarvarmaveitu ætti að geta framleitt hverja kílóvattsstund fyrir á bilinu tíu til þrettán krónur. Miðað við óbreytt verð til neytenda ætti þetta að geta sparað ríkinu þrjár til fimm milljónir króna á ári í niðurgreiðslum. Höfundur skýrslunnar vill taka fram að þetta sé fyrst og fremst frumathugun á því hvort hagkvæmt sé og tæknilega mögulegt að byggja viðarkyndistöð og hitaveitu í Grímsey. Ýmislegt eigi enn eftir að kanna en vonandi hvetji skýrslan hlutaðeigendur til að skoða þessi mál enn betur.

Greinin úr Vikudegi á pdf.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir frá Hallormsstað: Þór Þorfinnsson
Mynd af skógarhöggsmönnum: Rakel Jónsdóttir/Norðurlandsskógar



Viðarkyndistöð Skógarorku ehf. á Hallormsstað