Um 39% sauðfjárbænda segjast hafa stundað skógrækt í einhverri mynd í könnun sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa gert meðal félagsmanna sinna. Flestir vilja þeir auka skógrækt sína. Helmingur þeirra sem ekki hafa ræktað skóg hingað til segist hafa áhuga á því.
Skógræktarstjóri vonar að með sölunni á kyndistöð Skógarorku á Hallormsstað séu komnar forsendur til að eðlilegur markaður þróist á Héraði með viðarkurl. 
Þráinn Lárusson, ferðaþjónustufrömuður á Héraði, hefur keypt kyndistöð Skógarorku á Hallormsstað. Hann vonast til að geta boðið íbúum á Hallormsstað að tengjast veitunni líkt og upphaflega var gert ráð fyrir.
Fjallaþinur hefur reglulega þroskað fræ hérlendis síðustu árin og í Þjórsárdal getur nú að líta þétta sjálfsáningu tegundarinnar sem minnir á þinskóga í útlöndum. Ekki er ástæða til að ætla annað en að í fyllingu tímans verði svipuð forendurnýjun fjallaþins hér og á heimaslóðum tegundarinnar.
Útlit er fyrir mikla fræmyndun í sumar í Hekluskógum eins og annars staðar á landinu. Birkitrén eru hlaðin bæði kven- og karlreklum að sögn Hreins Óskarssonar, sviðstjóra hjá Skógræktinni, sem rætt var við í Samfélaginu á Rás 1 í gær. Sú hugmynd er nú rædd að efna til fræsöfnunarátaks í haust til að nýta allt það fræ sem útlit er fyrir að þroskist þetta sumarið.