Skógræktar- og landgræðslumál eru meðal elstu verkefna sem ríkisvaldið hefur tekið að sér á Íslandi og voru fyrstu lög um þessi málefni („Lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands“) sett á Alþingi Íslendinga þann 22. nóvember árið 1907, fyrir nákvæmlega einni öld.

Lögin frá 1907 urðu vísirinn að þeirri fjölþættu starfsemi stofnana (s.s. Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Landshlutaverkefna í skógrækt), frjálsra félagasamtaka áhugafólks (Skógræktarfélag Íslands, Landvernd) og einkafyrirtækja (gróðrarstöðva, skógarbænda) sem í dag starfa á þessu sviði hérlendis.

 

Aðdragandinn að setningu laganna má rekja til verkefnisins „Islands Skovsag“ („Skógræktarmálefni Íslands“) sem var í gangi hér á landi á árunum 1900-1906. Danskur sjóliðsforingi, Carl Ryder að nafni, átti frumkvæði að verkefninu og fékk til liðs við sig Carl Vilhelm Prytz, prófessor í skógrækt við danska landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Skógfræðingurinn Christian E. Flensborg bar síðan hita og þunga af hinu daglega starfi hérlendis. Þeir félagar voru í góðum tengslum við marga hérlenda áhrifamenn og virkjuðu fjölda manns til starfa meðan verkefnið var í gangi. Verkefnið naut fjárstuðnings danskra stjórnvalda, Íslandsráðuneytisins í Kaupmannahöfn og síðar íslenska stjórnarráðsins. Formlega lauk verkefninu við gildistöku skógræktarlaganna frá 1907, en skýrslur af starfinu báru þó heitið Islands Skovsag mun lengur.

  

Hinn 12. mars 1903 sendu Ryder og Prytz Íslandsmálaráðherra (sem þá var danskur), samkvæmt beiðni hans, ýtarlega greinargerð um það sem þeir töldu þurfa að gera íslenska skógræktarmálefninu til framdráttar. Hér lögðu þeir til, að „skógfriðun yrði ákveðin með lögum, svo að skógarhögg og önnur meðferð, er eyðileggur skóginn, yrði fyrirbyggð.“

 

Þegar Hannes Hafstein var orðinn ráðherra Íslands, tók hann skógræktarmálið upp af alvöru og fékk Ryder og Prytz til að semja lagafrumvarp um skógræktina, eins og þeir höfðu lagt til 1903. Gerðu þeir svo og lagði hann frumvarp að lögum fyrir Alþingi 5. júlí 1907. En lögin sem samþykkt voru þá um haustið, reyndust aðeins skuggi af frumvarpi Dananna.

 

Upphafleg gerð þess er dagsett 5. des. 1906. Það var í tveimur aðalköflum: I. Um skógrækt. II. Um varnir gegn sandfoki í Árnes- og Rangárvallasýslum. Tildrög sandfokskaflans var þessi: Á ferð sinni til Íslands 1903 hafði Prytz fyrstur manna rannsakað íslenskan jarðveg. Hann fékk Dahlerup sandgræðslufulltrúa á Jótlandi til að fara til Íslands og rannsaka sandfokið á Suðurlandi og uppblásturinn. Dahlerup samdi um þetta ýtarlegan kafla í frumvarpinu.

 

Hinn 5. júlí 1907 lagði Hannes Hafstein frumvarpið fram í Neðri deild Alþingis, eins og fyrr sagði, og hóf mál sitt á þessa leið:

Þetta frumvarp má skoða sem nokkurs konar mælikvarða fyrir trúnni á framtíð þessa lands og viljann til að leggja nokkuð á sig fyrir þá, sem lifa eiga á ókomnum tímum. Það er ekki hægt að búast við því, að það fyrirtæki, sem hér er um að ræða, gefi af sér neinn arð í dag eða á morgun. Hér er farið fram á að leggja á sig kostnað til þess að reyna að gjöra landið betra, vistlegra og fegurra fyrir börn vor og þeirra börn. Það byggist á þeirri ósk, að gróður landsins ekki einungis haldist við, heldur aukist og margfaldist á ókomnum árum, og það byggist á því trausti, að það, sem hefur verið, geti orðið aftur.“

 

Frumvarpinu var illa tekið í Neðri deild. Sandfokskaflinn var hreinlega felldur niður og skógræktarkaflanum var breytt í einu veigamiklu atriði, sem varðaði skipun og laun skógræktarstjóra. Svo breytt var frumvarpið samþykkt með eins atkvæðis meirihluta í Neðri deild, en mótatkvæðalaust í Efri deild. Lögin skyldu taka gildi 1. janúar 1908. Með þeim var í raun Skógrækt ríkisins orðin til, þar sem „Skógarverðir skulu settir yfir skógræktarjarðir og trjáræktunarsvæði landssjóðs, annast framkvæmd á skógræktarstörfum þar, hafa eftirlit með meðferð og rækt skóga, hver á sínu svæði, sem honum er skipað ...“. Skógræktarstjórinn skyldi: „hafa á hendi forstjórn opinberra ráðstafanna sem gjörðar verða til að varna sandfoki.“

 

Eftir þessa afgreiðslu Alþingis sögðu þeir Ryder og Prytz sig frá verkefninu „Skógræktarmálefni Íslands“ (Islands Skovsag) eftir að hafa gengið að því af ótrúlegum hugsjónaeldi, fórnað því miklum tíma og kröftum, en engin laun þegið fyrir.

 

Í ársbyrjun 1908 var Agnar F. Kofoed-Hansen skógfræðikandidat skipaður skógræktarstjóri. Skyldi hann verða „forstjóri fyrir skógræktarmál landsins“, en einnig hafa á hendi forstjórn opinberra ráðstafana í landgræðslu („til varnar sandfoki“). Gegndi hann þeirri stöðu í 27 ár, eða til ársins 1935.

 

Heimildir:

 

Gunnar Guttormsson. 2007. Islands Skovsag

http://www.islandsskovsag.net/

Sigurður Blöndal. 2007. Formáli. Islands Skovsag – Skógræktarmálefni Íslands. Skýrslur og ritgerðir 1901-1916. Útgáfa í tilefni aldarafmælis laga nr. 54 1907 um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands. Landbúnaðarráðuneytið.

 

Tengt efni:

Magnús Gunnarsson, "Skógræktarlög í 100 ár" (Morgunblaðið, 22. nóv. 2007)

"Ísland að blása upp" (frétt úr Morgunblaðinu 20. mars 1920) þar sem sagt er frá efni fyrirlesturs Próf. C.V. Prytz.