Björn, Hjördís og Sverrir við hæsta tré landsins að lokinni mælingu í síðustu viku. Tréð er nú 29,37 metrar á hæð og með sama áframhaldi nær það 30 metrum 2022. Ljósmynd: Hjördís Jónsdóttir
Sitkagrenið á Klaustri sem borið hefur titilinn hæsta tré landsins undanfarin ár vex um hálfan metra á ári. Að óbreyttu nær það 30 metra hæð sumarið 2022. Metingur hefur verið með Sunnlendingum og Austfirðingum um hvorir eigi hæstu öspina á Íslandi. Þótt Sunnlendingar geti státað af hæsta sitkagreninu verða þeir að bíta í það súra með öspina. Sú hæsta er á Hallormsstað og hefur náð yfir 26 metra hæð.
Hæðarmælingar á trjám eru skemmtilegt hliðarverkefni mælingaflokka Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, sem fara um árið á hverju sumri og afla ýmiss konar gagna um vöxt, viðgang og útbreiðslu skóglendis á landinu. Gögn úr þeim mælingum eru meðal annars send Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna undir merkjum Íslenskrar skógarúttektar og út frá þeim gefin út binding íslensku skóganna. En alltaf er forvitnilegt að fylgjast líka með því hvar hæstu tré landsins af mismunandi tegundum er að finna.
20 metra klúbburinn stækkar
Alls hafa nú tíu trjátegundir náð tuttugu metra hæð einhvers staðar á Íslandi. Rússalerki var fyrsta tegundin sem náði þessari hæð en fljótlega bættist við bæði alaskaösp og sitkagreni. Aðrar tegundir sem náð hafa 20 metrum svo vitað sé eru blágreni, evrópulerki, stafafura, degli, rauðgreni, fjallaþinur og álmur. Fimm til viðbótar ættu að ná tuttugu metra hæð á næstu árum. Það eru skógarfura, hengibirki, gráelri, blæelri og askur. Um þetta fjallar Þröstur Eysteinsson í Ársriti Skógræktarinnar sem kemur út innan tíðar.
Björn Traustason sérfræðingur var á ferð um Austur- og Suðurland nú í mánuðinum ásamt tveimur sumarstarfsmönnum Mógilsár, Hjördísi Jónsdóttur, og Sverri Baldri Torfasyni. Hjördís er góður ljósmyndari og tók meðfylgjandi myndir á Hallormsstað, Kirkjubæjarklaustri og í Múlakoti Fljótshlíð þar sem mæld voru hávaxin tré að þessu sinni.
Austurland með hæstu öspina
Hæsta öspin á Íslandi er samkvæmt þessum mælingum alaskaösp sem stendur við Hjalla á Hallormsstað. Hún mældist í síðustu viku 26,11 metrar á hæð og er um 80 sentímetrum hærri en hæsta öspin sem hópurinn fann í Múlakoti. Góðlátlegur metingur hefur verið milli sunnan- og austanmanna um hvorir ættu hæstu öspina en nú þurfa Sunnlendingar að leita vel ef þeir þykjast geta fundið enn hærri ösp.
Ekki verður hins vegar tekið af Sunnlendingum að geta montað sig af hæsta tré landsins. Og ekki nóg með það því þar er líka að finna hæsta álminn á landinu sem vitað er um. Það er myndarlegt tré sem margt trjááhugafólk hefur lagt leið sína í Múlakot til að skoða. Þessi álmur er nú kominn í hóp þeirra trjáa sem náð hafa 20 metra hæð á landinu. Hann var gróðursettur um 1939 og mun vera ættaður frá Beiarn í Noregi. Hæð þess mælist nú 20,54 metrar og þvermál í brjósthæð 526 millímetrar.
Hæsta tréð hækkar áfram og hækkar
Stolt Sunnlendinga og raunar landsmanna allra er hins vegar sitkagrenið stóra í skógarlundinum á Kirkjubæjarklaustri sem mælst hefur hæsta tré landsins um árabil. Það var gróðursett 1949. Vöxtur trésins hefur verið um hálfur metri á ári undanfarin fjögur ár eins og hér sést:
- 2016 - 27,18 m
- 2018 - 28,36 m
- 2020 - 29,37 m
Ef tréð á Klaustri verður ekki fyrir áföllum má með sama áframhaldi búast við því að einhvern tíma sumarið 2022 verði fyrsta tréð á Íslandi orðið 30 metra hátt, í það minnsta síðan stórviðir uxu á landinu á hlýskeiðum ísaldar fyrir tugum þúsunda ára. Spennan magnast því í skógarlundinum á Kirkjubæjarklaustri. Hæsta tréð mælist nú 481 mm að þvermáli í brjósthæð. Nágranni þess, sömu tegundar, er nokkru gildvaxnari og mælist nú 690 mm að þvermáli í brjósthæð. Enn sverara er þó sitkagreni í Múlakoti sem gróðursett var 1934. Það er 708 mm að þvermáli samkvæmt nýrri mælingu og 23,55 metra hátt.
Nýverið sögðum við hér frá hæsta lerkitré sem vitað er um á landinu og stendur við Fálkaklett í Hallormsstaðaskógi. Það er rússalerki og hefur nú náð 25,07 metra hæð. Næsthæsta lerkið er líklega evrópulerki í Mörkinni Hallormsstað sem er 24,91 metri samkvæmt nýrri mælingu.