30 skógarbændur mættu á fyrsta námskeiðaröðina Grænni skóga I á Austurlandi, sem byrjaði formlega um síðustu helgi með námskeiðinu, "Skógur og landnýting" þar sem Þröstur Eysteinsson, þróunarstjóri Skógræktar ríkisins og Lárus Heiðarsson, ráðunautur Skógræktar ríkisins voru leiðbeinendur.

Námskeiðið fór fram í húsnæði Fræðslunets Austurlands á Egilsstöðum.  Grænni skógar er yfirskrift á öflugu skógræktarnámi, ætlað fróðleiksfúsum skógarbændum, sem vilja ná hámarksárangri í skógrækt.

Námið samanstendur af 17 námskeiðum þar sem 13 eru skyldunámskeið og a.m.k. 2 valnámskeið. Námskeiðaröðin spannar yfir þrjú ár eða frá 2004 ? 2007.  Hvert námskeið er í tvo daga í senn og þá yfirleitt frá kl. 16:00 til 19:00 á föstudegi og frá kl. 10:00 til 17:00 á laugardegi. Reynt er að koma við verklegri kennslu og vettvangsferðum eins og passar hverju sinni. Þátttakan í náminu fór fram úr björtustu vonum og því greinilegt að það hefur vantað nám sem þetta fyrir skógarbændur. 

Garðyrkjuskóli ríkisins, Reykjum í Ölfusi, sér um framkvæmd námsins en þeir aðilar sem koma að náminu auk skólans eru Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins, Héraðsskógar,  Félags skógarbænda á Héraði, Austurlandsskógar og Félag skógarbænda á Austurlandi. Þeir sem ljúka 80 % af námskeiðunum 13 fá námið metið til eininga hjá Garðyrkjuskólanum.  

Næsta námskeið Grænni skóga á Austurlandi verður haldið 12. - 13. nóvember í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði. Það heitir, "Val á trjátegundum" en leiðbeinendur þar verða Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá og Lárus Heiðarsson, ráðunautur Skógræktar ríkisins. 

Umsjónarmaður námskeiðanna á Austurlandi er Jóhann F. Þórhallsson, umsjónamaður Austurlandsskóga.  Magnús Hlynur Hreiðarsson tók meðfylgjandi mynd á námskeiðinu.