Endurræktun beykis í Soignes-skóginum skammt suðaustan við Brussel. Mynd: Creative Commons/Donar Rei…
Endurræktun beykis í Soignes-skóginum skammt suðaustan við Brussel. Mynd: Creative Commons/Donar Reiskoffer

Ráðstefna og sýning í Brussel 5.-7. apríl

Samtök evrópskra ríkisskóga, EUSTAFOR, standa fyrir ráðstefnu í Brussel í byrjun apríl þar sem fjallað verður um ábyrga nýtingu evrópskra skóga með hagsmuni fólks, loftslags og náttúru að leiðarljósi. Í tengslum við ráðstefnuna verður haldin sýning um þessi málefni og farið í kynnis­ferð þar sem litið verður á margvíslegt hlutverk og tilgang skóganna fyrir menn og umhverfi.

EUSTAFOR eru regnhlífarsamtök þrjátíu ríkisskógastofnana í 22 Evrópulöndum. Til meðlima samtakanna heyrir um þriðjungur alls skóglendis í Evrópu og hjá þessum stofnunum starfa yfir 100 þúsund manns. Íslensku þjóðskógarnir eiga ekki aðild að þessum samtökum en í röðum þeirra eru ríkisfyrirtæki og stofnanir í skógrækt sem hafa sjálfbæra skógrækt viðarframleiðslu að leiðarljósi og meginmarkmiði.

Ráðstefnan kallast á ensku „Managing European Forests Responsibly - for People, Climate and Nature“. Að undirbúningi hennar standa nokkrar stofnanir og verkefni á sviði umhverfismála, landbúnaðar-, byggðaþróunar-, iðnaðar- og orkumála og hún verður haldin 5. apríl í byggingu Evrópuþingssins í Brussel. Við lok ráðstefnunnar verður sýningin opnuð og þar flytur ávarp finnski þingmaðurinn Nils Torvalds sem einnig á sæti á Evrópuþinginu.


Auk EUSTAFOR stendur að þessum við­burðum samstarfshópur Evrópuþingsins um loftslagsbreytingar, líffjölbreytni og sjálf­bæra þróun, IUCN (European Parlia­ment Intergroup on Climate Change, Biodiversity and Sustainable Develop­ment).

Daginn eftir ráðstefnuna, 6. apríl, verður farið í skoðunarferð í Soignes-skóginn í samstarfi við Natuurinvest sem er aðili að EUSTAFOR-samstarfinu. Soignes-skógur­inn er um 4.500 hektara skóglendi suð­austur af Brussel, hluti þeirra leifa sem eru eftir af fornum skógum þessa svæðis. Í kynnis­ferðinni verður hugað að margvís­legri vistkerfisþjónustu skóga og margvíslegu gagni sem við mennirnir höfum af skógunum. Ferðin endar á veislu þar sem borin verður fram villibráð úr skóginum ásamt öðrum skógarkrásum.


Með þessum þremur viðburðum, ráðstefnunni, sýningunni og kynnisferðinni, vilja samtökin EUSTAFOR vekja athygli á því hvernig skógar Evrópu geta hjálpað mönnum að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í 2020-áætlun Evrópu­sambandsins, 2030-áætluninni um loftslag og orku ásamt markmiðum Parísarsamkomulagsins frá því í desember. Viðburðina ber upp á sama tíma og fagnað verður tíu ára afmæli EUSTAFOR-samstarfsins.


Texti: Pétur Halldórsson