Fjallað um Mýrviðarverkefnið í Morgunblaðinu í dag
„Við erum að rannsaka hvort skógur sé góð leið til að binda losun koltvísýrings frá framræstu landi eða hvort það eigi að moka ofan í skurðina til að endurheimta votlendið.“ Þetta segir Brynhildur Bjarnadóttir, lektor hjá Háskólanum á Akureyri, í viðtali í Morgunblaðinu í dag þar sem fjallað er um rannsóknarverkefnið Mýrvið.
Sem kunnugt er standa nú yfir mælingar í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á öndun lofttegunda að og frá asparskógi sem ræktaður er í framræstri mýri. Eitt meginmarkmiða þessara rannsókna er að sjá hvort vænlegt getur verið að rækta skóg á framræstu landi í stað þess að fylla í skurði og endurheimta votlendið. Brynhildur stýrir þessum rannsóknum og spennandi verður að sjá niðurstöðurnar.
Grein Morgunblaðsins er á þessa leið:
„Við erum að rannsaka hvort skógur sé góð leið til að binda losun koltvísýrings frá framræstu landi eða hvort það eigi að moka ofan í skurðina til að endurheimta votlendið,“ segir Brynhildur Bjarnadóttir, lektor hjá Háskólanum á Akureyri, sem rannsakar áhrif þess að planta trjám í framræst land.
Rannsóknin fer fram í asparskógi í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og nefnist verkefnið Mýrviður. Skógurinn sem þar stendur er stærsti samfelldi asparskógur landsins og stendur á framræstu mýrlendi Sandlækjar.
Rannsóknarstöð skógræktar ríkisins á Mógilsá er með í þessari rannsókn ásamt Landbúnaðarháskóla Íslands. Orkurannsóknarsjóður Landsvirkjunar hefur stutt verkefnið undanfarin 3 ár.
„Vitað er að framræst votlendi losar talsvert magn af CO² en skógur aftur á móti bindur það, þess vegna er þetta samspil svo skemmtilegt viðfangs,“ segir Brynhildur.
Moka ofan í eða planta?
En það er ekki slæmt að moka ofan í skurðina?
„Nei, alls ekki. Ekki frá sjónarhorni þeirra sem vilja minnka losun á koltvísýringi út í andrúmsloftið. En að planta trjám í framræst land er bara önnur aðferð. Það er ekki alls staðar heppilegt að moka ofan í skurði, því þá færðu votlendi sem þú sem landeigandi getur kannski ekki nýtt.
Þessi rannsókn gengur út á að skoða hvort skógrækt sé ekki annar valkostur. Með því að planta trjám færðu nefnilega eitthvað til baka, þú byggir upp auðlind í formi timburs sem hægt er að nýta til einhverrar vinnslu síðar.“
Eru margir þessara skurða samt ekki enn til mikils gagns?
„Jú, en mjög víða hafa þeir ekki lengur neitt hlutverk. Flestir af þessum skurðum voru grafnir á sjötta og sjöunda áratugnum með það að markmiði að þurrka votlendi sem gæti svo nýst sem landbúnaðarland, til dæmis fyrir ræktun eða beit.
En svo kemur í ljós að mikið af þessu landi er í raun ekki verið að nota til landbúnaðar í dag og þau svæði væru kannski einmitt heppileg til skógræktar.“
Hefur þetta ekki verið rannsakað áður?
„Ekki hér á Íslandi. Þetta er frumherjarannsókn á þessu sviði. Við teljum þetta raunhæfa leið sem gæti hugnast bændum eða landeigendum.“
Þetta hefur ekki verið rannsakað hér á landi en erlendis?
„Jú, þetta hefur verið rannsakað í Svíþjóð og Finnlandi. Þar kemur fram að ræktaðir skógar ná, á ákveðnum aldri, oftast nær að vega upp losunina frá framræslunni.“
Brynhildur bendir meðal annars á að rannsóknir hafa sýnt að norðlæg vistkerfi, t.d. barrskógarbeltið, gegni mikilvægu hlutverki í kolefnisbindingu jarðar.
En nægja þessar erlendu rannsóknir þá ekki?
„Nei, það er alltaf erfitt að yfirfæra erlendar rannsóknir á þær aðstæður sem við búum við hér á Íslandi. Hér er öðruvísi jarðvegur, önnur veðurfarsskilyrði og fleiri þættir sem hafa mikil áhrif í loftslagsrannsóknum. Þess vegna erum við að skoða þetta hér,“ segir Brynhildur.
Mörg mælitæki notuð
Í doktorsverkefni Brynhildar Bjarnadóttur, lektors við Háskólann á Akureyri, rannsakaði hún inn- og útflæði kolefnis í íslenskum lerkiskógi í Vallanesi á Héraði. Þar voru notuð öflug mælitæki til mælinga á kolefnisbúskap en mælitækin eru sett hátt upp í mastur fyrir ofan trjátoppana og mæla þar kolefnisflæði (CO²) vistkerfisins á ársgrundvelli. Mælitækin standa nú í Sandlækjarmýri og mæla kolefnisflæði þar. Þá fara einnig fram mælingar á kolefnisforða skógarins svo og mælingar á magni lífræns efnis sem fer út með vatni.
Rannsóknin þarf að standa í 3-4 ár til að hægt sé að fullyrða eitthvað um niðurstöðurnar og birta þær í vísindatímaritum.