Ecosia-leitarvélin nú hluti af íslenska vafranum Vivaldi

Í nýjustu útgáfunni af íslenska vefvafranum Vivaldi hefur leitarvélinni Ecosia verið bætt við. Með notkun Ecosia-leitarvélinni geta notendur vafrans þar með stutt við skógræktarverkefni víðs vegar um heiminn. Einkum er beint sjónum að svæðum þar sem umfangsmikil skógareyðing hefur orðið.Nú þegar hafa verið gróðursettar rúmar níu milljónir trjáplantna með tilstyrk Ecosia-leitarvélarinnar.

Vivaldi-vefvafrinn var þróaður af teymi frumkvöðla með Jón von Tetzchner, forstjóra Vivaldi Technologies, í fararbroddi. Bændablaðið segir frá þessu og þar kemur jafnframt fram:

Ecosia er „græn leitarvél“ í þeim skilningi að hún notar um 80 prósent af auglýsingatekjum sínum í skógræktarverkefnin. Í hvert skipti sem notandi leitar með Ecosiu leggur hann sitt að mörkum. Talið er að hver notandi þurfi að leita í um 45 skipti til að hægt sé að planta einni trjáplöntu. Rúmlega átta milljónum trjáplantna hefur þegar verið plantað með þessum hætti síðan fyrirtækið hóf starfsemi árið 2009. Vonir standa til að talan verði komin í einn milljarð árið 2020.

Í tilkynningu sem Jón von Tetzchner sendi frá sér af þessu tilefni kemur fram að teymið sé mjög stolt af samvinnunni við Ecosia og vonast sé til að notendurnir leggi sitt af mörkum til umhverfismálanna, einfaldlega með því að nota græna leitarvél á vefnum. „Það er okkar staðfasta skoðun að fólk eigi sjálft að bera ábyrgð á upplifun sinni, þegar það vafrar á netinu. Með því að bæta Ecosia leitarvélinni við Vivaldi, erum við að höfða til umhverfisvitundar notenda okkar og veitum þeim aðgang að grænum leitarvélum.“


Vivaldi hefur sérstöðu

María Þorgeirsdóttir, skrifstofu- og starfsmannastjóri hjá Vivaldi Technologies á Íslandi, segir að þau telji ekki erfitt að ná fótfestu með nýjan vafra, vegna þess að Vivaldi vafrinn er öðruvísi. „Á meðan aðrir vafrar verða stöðugt einfaldari er lögð áhersla á það við þróun Vivaldi að bæta stöðugt við nýjum eiginleikum til þess að gera vefnotkun skilvirkari og öflugri og uppfylla þannig kröfur notenda,“ segir María.

Notendur sem prófa Vivaldi í fyrsta skipti geta fundið Ecosia í leitarglugganum hægra megin við vefslóðagluggann. Ef smellt er á stækkunarglerið birtist valmynd með ýmsum leitarvélum, þar á meðal Ecosia. Hægt er að gera Ecosia-leitarvélina sjálfgefna í still-ingunum, sem finna má undir merki Vivaldi vafrans.

Eins og sést á meðfylgjandi skjámynd af Ecosia-leitarvélinni hafa nú verið gróðursettar rúmar níu milljónir trjáplantna fyrir tilstilli vefsins. Það er því augljós ávinningur af notkun þessarar leitarvélar og rétt að mæla með henni við allt náttúruverndarfólk enda er besta náttúruverndin efling gróðurlendis og skógar eru öflugasta tegund gróðurlendis.