Í gær fór fram aðalfundur Félags skógarbænda á Héraði og var hann bæði vel sóttur og viðburðaríkur. Fyrir utan hefðbundin aðalfundastörf var Fjölnir Hlynsson með áhugavert erindi um möguleika á stofnun félags á Héraði um nýtingu og sölu á þeim bolviði sem fellur til á starfssvæðinu. Hugmyndir Fjölnis fengu ágætan hljómgrunn á fundinum og var stjórn falið að vinna að hugmyndinni áfram, m.a. að stuðla að því að fram fari kostnaðar- og hagkvæmnisathugun. Jafnframt var fyrirhuguð hátíð skógarmanna, sem gengið hefur undir vinnuheitinu Skógardagurinn mikli, nokkuð rædd og fundarmenn sammála um mikilvægi þess að félagið kæmi að slíku verkefni. Var stjórn falið að vinna að verkefninu áfram í samstarfi við Héraðsskóga og Skógrækt ríkisins á Hallormsstað.

Framkvæmdastjóri Héraðsskóga flutti hefðbundna skýrslu um starfsemi ársins og fékk að henni lokinni þó nokkrar fyrirspurnir varðandi verkefnið. Var þar snert á málum eins og mikilvægi fjárhagsupplýsinga í ársskýrslu, smíði Grænsíðu (gagnagrunns í skógrækt) og mögulega þörf að hækkun framlaga vegna jarðvinnslu. Starfsmenn Héraðsskóga munu taka þessa umræðu upp innanhús og vinna áfram að þeim tillögum sem þar voru viðraðar.

Starfsmenn Héraðsskóga vilja þakka skógarbændum fyrir góðan og líflega fund sem og fyrir gott samstarf á árinu 2004. Við óskum félaginu velfarnaðar á yfirstandandi starfsári.