Frá aðalfundi LSE í Varmahlíð í Skagafirði 2014
Frá aðalfundi LSE í Varmahlíð í Skagafirði 2014

Fjallað um skógarnytjar á Vesturlandi, fjallaþin sem jólatré og fleira

Átjándi aðalfundur Landssamtaka skógareigenda verður haldinn á Hótel Stykkishólmi dagana 2.-3. október í samstarfi við Félag skógarbænda á Vesturlandi. Málþing verður haldið í tengslum við aðalfundinn þar sem fjallað verður um skógarnytjar á Vesturlandi og um úttektir á árangri í skógrækt og leiðir til úrbóta. Á ársfundi jólatrjáaræktenda sem haldinn er í tengslum við aðalfundinn verður flutt fræðsluerindi um fjallaþin í jólatrjáarækt.

Fundurinn hefst kl. 14.00 föstudaginn 2. október með venjulegum aðalfundarstörfum, en gert verður hlé á fundinum kl. 16.00. Þá hefst málþing þar sem fjallað verður um skógarnytjar á Vesturlandi, úttektir á árangri í skógrækt og leiðir til úrbóta.

Ársfundur jólatrjáaræktenda verður um föstudagskvöldið þar sem boðið verður m.a upp á fræðsluerindi um ræktun fjallaþins sem jólatrés. Félag skógarbænda á Vesturlandi býður fundargestum til skógargöngu með leiðsögn laugardaginn og að endingu njóta allir góðrar samveru á árshátíð skógarbænda.

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri LSE, í síma 899-9662 eða í tölvupósti, hronn.lse@gmail.com.

Heimild: Vefur LSE