Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti 69 millj. kr. í styrki til þrjátíu  verkefna á dögunum. Nokkrir styrkir voru veittir til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða á umsjónasvæðum Skógræktar ríkisins eða í næsta nágrenni þeirra.

Skógrækt ríkisins fékk 2,4 millj. kr. styrk til hönnunarsamkeppni um þjónustuhús, bálskýli og umhverfi þeirra, fyrir þjóðskóga Skógræktar ríksins. Áætlað er að þessir áningarstaðir verði staðsettir víðsvegar um land, þ.e. í Hrafnagjárhalli á Þingvöllum, Laugarvatni, Tumastöðum í Fljótshlíð, Stálpastöðum í Skorradal, Vöglum á Þelamörk og á Hallormsstað. Verður leitað eftir samstarfið við Framkvæmdasýslu ríkisins við hönnunarsamkeppnina. Vinir Þórsmerkur sem Skógrækt ríkisins er aðili að auk ferðaþjónstuaðila og sveitarfélags, fengu 2,8 millj. kr. styrk til deiliskipulagsvinnu og landslagshönnun á áfangastöðum ferðamanna og ferðamannaleiðum í Þórsmörk og Goðalandi og til merkinga á helstu leiðum með áherslu á öryggi ferðamanna. Verður verkefnið unnið í samstarfi við skipulagsyfirvöld í Rangárþingi Eystra.

Skógrækt ríkisins hefur einnig umsjón með hönnun göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal og er 4 milljóna styrkur til staðar til að ljúka við hönnunarsamkeppni. Verður það verk unnið í góðu samstarfi við Vini Þórsmerkur, Framkvæmdasýslu ríkisins og skipulagsyfirvöld. Fleiri verkefni í næsta nágrenni skóglenda fengu einnig veglega styrki, s.s. verkefni Fornleifaverndar ríkisins sem fékk 5 millj. kr. styrk til hugmyndasamkeppni er lýtur að heildarmynd minjasvæðisins í Þjórsárdal og gönguleiðum milli minjastaða. Einnig fékk Rangárþing Eystra 1 millj. kr. styrk vegna upplýsingaskilta og stikunar á leiðinni yfir Fimmvörðuháls en það er afar villugjörn leið sem liggur úr Goðalandi yfir á Skóga.

Skógrækt ríkisins þakkar stjórn Framkvæmdasjóðsins traustið og hlakkar til að takast á við þau spennandi verkefni sem getið er að ofan og koma til með að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn í Þjóðskógum landsins.

27022012-2

27022012-1

27022012-3


Texti og myndir: Hreinn Óskarsson