Kanadíski arkitektinn Michael Green telur að aukin notkun viðar til húsbygginga í heiminum stuðli að betri nýtingu skóganna og þar með verndun skógarþekju jarðarinnar.
Gleymið stáli og steypu, segir arkitektinn Michael Green
Viður geymir fingraför náttúrunnar og því tengjumst við timburhúsum betur en húsum úr stáli og steinsteypu. Þetta segir kanadíski arkitektinn Michael Green sem hefur séð fólk faðma að sér timbursúlu í húsum sem hann hefur teiknað en aldrei stál- eða steypusúlu.
Green bendir á að viður sé eina byggingarefnið sem orðið hafi til fyrir orku sólarinnar og það kolefni sem viðurinn hafi bundið meðan tréð óx megi geyma um langan aldur með því að reisa úr honum stórbyggingar. Hann tekur nú þátt í hönnun háhýsa úr timbri og sagði frá þeim í TED-fyrirlestri árið 2013. Þar lýsir hann þeim breytingum sem hafa orðið í límtréstækni á síðari árum sem gerir kleift að reisa mun stærri byggingar úr timbri en áður var mögulegt. Green hefur ásamt samstarfsfólki sínu hannað timbureiningakerfi eftir svipaðri hugmyndafræði og LEGO-kubba. Eftir þeirri tækni hefur hann hannað 35 hæða timburháhýsi.
Í myndbandinu fer Green yfir allar þær helstu efasemdir sem kvikna í huga fólks þegar stórhýsi úr timbri ber á góma. Hann bendir til dæmis á að þegar kveikt er upp í arni eða kamínu séu notuð sprek og smáspýtur til að koma brunanum af stað en síðast séu lagðir sverari drumbar og þeir séu lengi að brenna. Eins sé með svera límtrésbita. Vel sé vitað hversu lengi þeir séu að brenna og því auðvelt að taka það með í reikninginn við hönnun húsanna. Háhýsi úr timbri séu örugg, eldtraust og aukin notkun timburs eigi ekki að hafa áhrif á skógarþekju heimsins ef viðarnytjarnar eru sjálfbærar.
Þá bendir Green líka á að 3% gróðurhúsalofttegunda sem mannkyn losar út í andrúmsloftið séu vegna framleiðslu og notkunar á stáli og 5% vegna steinsteypu. Átta prósent af allri losun gróðurhúsalofts er því vegna þessara tveggja efna en ekki nóg um það. Tæpur helmingur allrar losunar í heiminum tengist byggingum og byggingariðnaði, lýsingu og upphitun húsa o.s.frv.. Þarna eru því mikil tækifæri til að draga úr útblæstri.
Sem fyrr segir telur Green að aukin notkun viðar þurfi ekki að stofna skógum heimsins í hættu. Þvert á móti geti aukin notkun viðar stuðlað að því að skógarnýting verði sjálfbær um allan heim. Eftir því sem viður verði verðmætari ýti það undir að skógar séu nýttir með sjálfbærum hætti og sjálfbær skógrækt með hringrás endurræktunar og nytja verði arðbærari. Aukin notkun viðar geti með öðrum orðum leitt til útbreiðslu skóga frekar en eyðingar.
Markmið Greens er að standa megi undir aukinni spurn mannkyns fyrir húsnæði um allan heim án þess að auka losun gróðurhúsalofttegunda. Michael Green hlaut verðlaun The TED Talent Search fyrir þennan fyrirlestur sinn. Hann hrefur stundað kennslu við SALA, arkitektaháskóla Bresku-Kólumbíu, og starfar við arkitektafyrirtæki sitt, MG Architecture í Vancouver í Kanada. Fyrirtækið hefur hannað sjö hæða timburbyggingu sem nú rís í Minneapolis í Bandaríkjunum.