Ársrit Skógræktar ríkisins 2015 komið út
Fjallað er um asparglyttu, kal í kjölfar asparryðs og fleira sem snertir heilsufar trjágróðurs á Íslandi í nýútkomnu Ársriti Skógræktar ríkisins 2015. Fyrirhuguð sameining skógræktarstofnana kemur einnig við sögu, tilraunir og rannsóknir í skógrækt, aðstaða í þjóðskógunum og skjótur árangur í skógrækt á auðnum, bæði sunnan- og norðanlands ásamt ýmsu fleiru.
Ritið hefst að venju á ávarpi skógræktarstjóra undir yfirskriftinni Gengið til skógar. Þröstur Eysteinsson ræðir þar um undirbúning sameiningar skógræktarstofnana ríkisins í nýja stofnun. Hann horfir einnig fram á veginn og brýnir þjóðina til dáða. Halda verði talsvert lengur áfram að fjárfesta í skógrækt til að ná þeim fjölþætta ágóða sem skógar veita enda sé skógarauðlindin enn lítil. „Er þar erkki síst átt við þátt skóga við að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu og að græða upp rýrt og rofið land,“ skrifar Þröstur meðal annars.
Brynjar Skúlason skrifar grein um reynsluræktun á sænsku úrvalsefni af stafafuru og skógarfuru á Íslandi og reifar fyrstu niðurstöður þeirra athugana. Meðal annars er prófaður í tilrauninni kynbættur efniviður úr sænskum frægörðum sem lofar góðu. Ef sá efniviður reynist vel á Íslandi er komin örugg uppspretta fyrir heppilegan efnivið til ræktunar á Íslandi. Bestu einstaklingar tilraunarinnar gætu orðið grunnurinn að nýrri kynbættri kynslóð stafafuru fyrir íslenskar aðstæður.
Brynja Hrafnkelsdóttir skrifar ásamt fleirum um rannsóknir á ertuyglu. Einkum er fjallað um rannsóknir á fæðuvali ertuyglulirfa og samanburð á vexti trjáa sem hafa orðið fyrir mismiklum skemmdum af völdum þessara lirfa. Gefa fyrstu niðurstöðurnar til kynna að mikil ertuyglubeit hafi töluverð áhrif á hæðar- og þvermálsvöxt grenis en ekki mikil áhrif á vöxt alaskaaspar. Ertuyglulirfur þyngist þó hraðar á lúpínu en trjágróðri og líklegt sé að þær velji lúpínu frekar en tré ef hvort tveggja er í boði þótt í stórfaröldrum leggist þær á allt sem þær ná í.
Ný skilti og stígagerð á gönguleiðum í Esjuhlíðum er til umfjöllunar í grein eftir Björn Traustason og því næst fjallar Halldór Sverrisson um kal í kjölfar ryðsvepps á alaskaösp. Fram kemur að í vor verði hafist handa við að koma upp græðlingareitum á Tumastöðum í Fljótshlíð svo framleiða megi efni í tilraunir og reynsluræktun hjá þeim skógræktendum sem vilja bera þennan efnivið saman við eldri klóna.
Að venju er í Ársritinu grein um heilsufar trjágróðurs á landinu sem Edda S. Oddsdóttir og Halldór Sverrisson skrifa að þessu sinni. Hallgrímur Indriðason skrifar hugleiðingar um safnamál Skógræktar ríkisins og Hreinn Óskarsson fjallar um skóga Þjórsárdals og uppgræðslu þar. Lárus Heiðarsson og fleiri fjalla um notkun dróna við fjarkönnun í skógrækt og þá möguleika sem sú tækni gefur umfram hefðbundnar aðferðir við skógmælingar og áætlanagerð. Ólafur Oddsson skrifar hugleiðingu um skógaruppeldi og segir mikilvægt að sem flestir komi að slíkum verkefnum, þau verði fjölbreytt og höfði til ólíkra hópa.
Þá skrifar Pétur Halldórsson grein um skóginn á Hálsmelum í Fnjóskadal þar sem var nakin auðn í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar þegar Fnjóskdælir hófu þar skógrækt. Í nóvember 2015 var grisjað rúmlega 20 ára gamalt lerki á Hálsmelum og unnir úr því milli 500 og 600 girðingarstaurar. Pétur skrifar einnig samantekt upp úr skýrslum skógarvarðanna á Suður-, Vestur- og Norðurlandi um þá samninga sem Skógrækt ríkisins hefur gert við Landsvirkjun um bindingu kolefnis með skógrækt í Skarfanesi á Landi, Laxaborg í Dölum og á Belgsá í Fnjóskadal.
Loks er í Ársriti SR farið yfir fjármál stofnunarinnar og birtur starfsmannalisti.
Ársrit Skógræktar ríkisins er fáanlegt á starfstöðvum Skógræktar ríkisins um allt land. Einnig má senda kynningarstjóra póst á netfangið petur@skogur.is og óska eftir eintaki. Ritinu er jafnframt hægt að hlaða niður á eftirfarandi hlekk:
Ársrit Skógræktar ríkisins 2015