Í byrjun þessa árs veitti Ráðherranefnd Norðurlanda styrk til að efla þekkingu á áhrifum nýskógræktar á líffræðilegan fjölbreytileika, byggðaþróun og landslag.  Verkefnið hefur hlotið nafnið AFFORNORD og verkefnisstjóri er Guðmundur Halldórsson, Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, en þátttakendur í verkefninu koma af öllum Norðurlöndunum.  Fyrsti verkefnisfundurinn var haldinn í Kaupmannahöfn í mars 2004 og var þar farið yfir helstu verkþætti. 

Markmið verkefnisins er að safna saman þeirri þekkingu sem til er á Norðurlöndum um áhrif nýskógræktar á líffræðilegan fjölbreytileika, byggðarþróun og landslag.  Þetta verður að stórum hluta gert með því að halda fjölþjóðlega ráðstefnu um þetta málefni á Íslandi í júní 2005.

Að auki verður unnið að ákveðunum sameiginlegum rannsóknaverkefnum innan mismunandi sviða.

Stór hluti verkefnisins er einnig að auka sérhæfða þekkingu þátttakenda sem nýtast munu í rannsóknum.  Þetta er gert með því að halda verkþing (workshop) á ýmsum sviðum.  Nú þegar er lokið verkþingi þar sem kennd var tegundagreining stökkmors og fyrirhugað er verkþing þar sem unnið verður að gerð líkans yfir áhrif skógræktar á vistkerfi.  Að auki var AFFORNORD styrktaraðili að verkþingi NESCC um áhrif breyttrar landnotkunar á bindingu og losun gróðurhúsalofttegunda í ræktuðum þurrlendisvistkerfum.

Verkefnið er þemaverkefni íslenska landbúnaðarráðuneytisins á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði.  Niðurstöður verkefnisins verða birtar í ritröð Norðurlandaráðs, Tema Nord.

Heimasíða verkefnisins: http://www.skogur.is/page/affornord

Meirihluti undirbúningshópsins í Danmörku í mars sl. (Mynd: Sr./Karl)