Hið miðstýrða samræmi Ég get ekki varist þeirri hugsun, þegar þið flytjið þessar góðu ræður til skiptis, að þú sem forsætisráðherra til margra ára hljótir að spyrja sjálfan þig: Hef ég sofnað á verðinum? Hvernig hefur þetta eiginlega orðið svona?


"Jájá, mín ábyrgð er mikil og margra annarra. Hins vegar er hugsanlegt að af því ég hef verið í minni stöðu svona lengi að ástandið sé þó skömminni skárra en ella hefði verið; slíkt er ekki unnt að útiloka, svo öllu sé nú haldið til haga. Þrýstingurinn í þessa veru er gríðarlegur, ekki síst með allt sem kemur frá Evrópusambandinu og EES; það gengur fyrst og fremst út á samhæfingu og miðstýringu, sem er í rauninni fullkomlega óþörf. En þessi þróun hefur vissulega orðið á öllum sviðum. Ég er t.d. mikill áhugamaður um skógrækt. Segjum sem svo að ég hafi plantað birkitré eða ösp fyrir utan gluggann minn og vilji svo fella tréð. Hvers vegna stendur þá í byggingareglugerð að ég megi það ekki nema með leyfi byggingarnefndar ef tréð er orðið meira en 4 metra hátt og 25 ára gamalt? Ekki snýr málið að neinum öðrum en mér, sem plantaði trénu, og gengur ekki á rétt nokkurs lifandi manns. Og hvað geri ég? Ég tek stóran koparnagla og rek inn í tréð þannig að það deyr."

Hrafn: "Ég fæ alltaf hálfgerðan hroll þegar ég heyri þessar sífelldu kröfur um heildstætt útlit og að gæta verði samræmis. Hvað þýðir það? Að allt á að vera eins og litlir kassar á lækjarbakka."

Davíð: "Tökum dæmi af kirkjugörðunum. Þar ákveður núna landslagsarkítekt að á tilteknum reit skuli vera lágvaxin grenitré eða eitthvað slíkt. Það yndislegasta við gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu er ekki samræmið, heldur óreglan og fjölbreytnin. En svona erum við orðin óskaplega reglustikuð. Ég vil að fólk brjóti svona reglur og planti þeim trjám á leiði ástvina sinna sem því finnst við hæfi en ekki samkvæmt fyrirmælum landslagsarkítekta."

Hrafn: "Allt mitt líf hef ég stundað það að brjóta svona reglur. Og ég held að þetta hljóti að fara að breytast. Hér muni koma önnur kynslóð sem snýst gegn þessari miðstýringu og setur einstaklingsfrelsið í öndvegi."

Úr: "Frelsið skal verja með boðum og bönnum"; viðtali í Tímariti Morgunblaðsins, sunnudaginn 28. des. 2003, við Davíð Oddsson og Hrafn Gunnlaugsson