Hér sést hvar verið er að græða sprota af völdum fjallaþin á grunnstofn til fræræktar á Vöglum í Fnjóskadal. Með ágræðslunni er vonast til að framleiða megi jólatré sem bæði hafa eftirsóknarvert vaxtarlag og mótstöðu gegn frostskemmdum og óværu. Mynd: Pétur Halldórsson
Danskur sérfræðingur stýrði ágræðslu fjallaþins
Á uppstigningardag voru sprotar af úrvalstrjám fjallaþins græddir á grunnstofna í fræhöllinni á Vöglum í Fnjóskadal. Til verksins kom danskur sérfræðingur sem kann vel til verka við ágræðslu á þini. Ágræddu trén verða notuð sem frætré til framleiðslu á fyrsta flokks jólatrjám í íslenskum skógum og fyrstu fræin gætu þroskast eftir fimm ár ef allt gengur að óskum. Sama dag voru ágrædd lerkitré til að fjölga frætrjánum sem gefa af sér lerkiblendinginn Hrym.
Thomas Kunø ágræðslumeistari einbeittur á svip vefur teygju utan um ágræðslusprota.">
Ágræðsla þinsins er hluti af kynbótaverkefni sem unnið er að hjá Skógrækt ríkisins undir stjórn Brynjars Skúlasonar, sérfræðings á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Brynjar stundar nú doktorsnám í skógerfðafræði við Kaupmannahafnarháskóla og er þinurinn viðfangsefni hans. Markmiðið er að búa til úrvalsyrki af fjallaþin til jólatrjáaframleiðslu hérlendis. Til að stýra ágræðslunni á þininum fékk Brynjar danskan sérfræðing til landsins, Thomas Kunø, sem er þaulvanur ágræðslumaður, ekki síst við ágræðslu nordmannsþins sem er helsta tegundin í jólatrjáarækt í Danmörku.
Valdir höfðu verið fallegir fjallaþinir á nokkrum stöðum á Íslandi og af þeim klipptir sprotar sem græddir voru á grunnstofna eða fósturtré sömu tegundar. Ágræddu trén verða svo ræktuð upp í gróðurhúsi og fyrsta fræuppskeran gæti komið eftir fimm ár eða svo ef vel gengur. Fyrsta uppskera kynbættra jólatrjáa af fjallaþini gæti þá orðið eftir 15-20 ár og þá gæti íslenskur fjallaþinur farið að keppa fyrir alvöru við innfluttan nordmannsþin.
Með þessu starfi er verið að flytja tré sem hafa sannað erfðafræðileg gæði sín inn í gróðurhús til að flýta fyrir blómgun og fræmyndun og svo hægt verði að víxla á milli þeirra. Báðir foreldrar afkvæmanna verða þá gæðatré. Sama aðferð hefur verið notuð með góðum árangri við ræktun á lerkiblendingnum Hrym sem einmitt fer fram í fræhöllinni á Vöglum með víxlun rússalerkis og evrópulerkis. Á uppstigningardag var lerki einnig ágrætt því til stendur að fjölga frætrjánum svo framleiða megi meira af Hrymsfræi. Þröstur Eysteinsson skógerfðafræðingur stýrði þeirri ágræðslu.
Myndband um ágræðsludaginn á Vöglum 15. maí 2015
Í meðfylgjandi myndbandi er lýst í máli og myndum hvernig ágræðslan fór fram. Fjallað er um þær tvær aðferðir sem notaðar voru við ágræðslu þinsins, svokallaða T-ágræðslu sem notuð er þegar mikill munur er á sverleika ágræðslusprotans og grunnstofnsins, og hins vegar þá aðferð að skáskera bæði sprotann og stofninn og leggja sárin saman.
Aðalteymið í ágræðslunni, frá vinstri: Benjamín Örn Davíðsson, Þröstur Eysteinsson, Thomas Kunø, Else Møller, Valgerður Jónsdóttir og Brynjar Skúlason.">
Góðar vonir eru bundnar við að ágræðslan á uppstigningardag hafi tekist vel. Grunnstofnar bæði þinsins og lerkisins voru aðeins farnir að springa út en ágræðslusprotarnir voru enn í vetrardvala enda höfðu þeir verið geymdir í kæli fram að ágræðsludeginum. Æskilegt er að grunnstofninn sé kominn svolítið af stað en ágræðslusprotarnir ekki svo að safastreymið sé komið í gang þegar sprotinn fer að sjúga til sín næringu og vatn. Grætt var á um 210 þintré og ríflega 120 lerkitré og næstu vikurnar fá ágræddu trén að standa í góðum hita og raka undir akríldúk til að líklegra sé að ágræðslan beri árangur.
Kynbótastarfsem þetta er mikilvægt fyrir þróun skógræktar sem arðbærrar atvinnugreinar á Íslandi.