Hér heldur Gísli á reyniviðarplöntum. Sú sem sést til vinstri er í moltublöndu og er áberandi dökkgræn og hraustleg.
Gerðarlegri tré og minna ryð
Molta úr jarðgerðarstöð Moltu ehf. í Eyjafjarðarsveit lofar góðu við trjáplönturækt hjá Sólskógum í Eyjafirði. Birkiplöntur sem settar voru í moltublandaða mold sýna t.d. minni merki um birkiryð en jafngamlar plöntur í hefðbundinni mold.
Þau Katrín Ásgrímsdóttir og Gísli Guðmundsson, eigendur Sólskóga, hafa í sumar haft til sölu við vægu verði moltu frá Moltu ehf. og hafa viðtökur viðskiptavina verið mjög góðar. Sjálf hafa þau líka gert óformlegar tilraunir með moltuna sem þau segja að lofi mjög góðu. Ýmsar trjá- og blómplöntur hafa verið settar í jarðveg sem mismunandi mikið hefur verið blandaður moltu, jafnvel í hreina moltu eða moltu með fimmtungsblöndu af sandi.
Molta ehf. framleiðir aðallega tvenns konar moltu, svokallaða kraftmoltu sem er unnin úr ýmiss konar lífrænum úrgangi, þar á meðal kjöt- og fiskúrgangi, en einnig safnhaugamoltu sem kölluð er. Safnhaugamoltan er eingöngu unnin úr gróðurleifum, garðaúrgangi frá heimilum, stofnunum og fyrirtækjum. Hana hafa þau Katrín og Gísli gert tilraunir með í sumar. Kraftmoltan hentar hins vegar mjög vel á grasflatir og sem yfirlag í blómabeð til að mynda næringarforða og bægja frá illgresi sem á erfitt með að spíra í moltunni.
Hér eru aspir sem pottaðar hafa verið með moltublöndu. Til samanburðar er plantan til vinstri sem ekki er í moltu. Áberandi er hvað hún er ljósari á laufblöðin og stilkurinn linari ljósgrænn. Aspirnar í moltunni hafa dökkgræn blöð og sveran, stífan stilk með rauðleitum blæ.">
Gerðarlegri tré
Í stuttu máli eru niðurstöður þessara óformlegu tilrauna á þann veg að í moltublandaðri mold verði ungar trjáplöntur að gerðarlegri trjám. Hæðarvöxtur verður gjarnan minni enda minna nitur í moltunni en í tilbúnum áburði. Trén greina sig hins vegar meira, eru stinnari og hraustlegri að öllu leyti en sambærileg tré í hefðbundnum jarðvegi sem fengið hafa tilbúinn áburð. Ekki síst er blaðlitur þeirra dekkri og blöðin virðast þykkri og stinnari.
Taka skal fram að allt eru þetta óvísindalegar tilraunir enn sem komið er en þau Katrín og Gísli hafa áhuga á því að setja upp marktækari tilraunir, til dæmis í samstarfi við Skógræktina og Moltu ehf. Rætt er um að kanna yfirvetrun trjáa í moltu í vetur, jafnvel sáningu í plöntubakka með moltublöndu og fleira.
Gísli sýnir Ólöfu Jósefsdóttur, framkvæmdastjóra Moltu ehf., ýmsar trjáplöntur sem fengið hafa moltu í nesti og aðrar moltulausar til samanburðar. Birkiplantan sem er næst á myndinni hefur ekki fengið moltu heldur tilbúinn áburð. Á henni er birkiryð farið að láta á sér kræla en ekki vottar fyrir því á plöntunum sem standa í moltublandaðri mold.">
Styrkir moltan viðnámsþrótt trjánna?
Meðal áhugaverðra vísbendinga sem þessar prófanir í Sólskógum gefa er að birki fái betra mótstöðuafl gegn birkiryði ef það hefur moltu sér til viðurværis. Talsverður munur er á birkiplöntum úr sömu sáningu sem pottað var annars vegar í hefðbundna mold og hins vegar í mold með þriðjungsblöndu af moltu. Trén í moltunni eru ívið lægri en greina sig betur, eru dekkri á litinn og sýndu engin merki um birkiryð þegar þau voru skoðuð 19. ágúst. Nokkurt ryð var hins vegar komið á trén sem stóðu í venjulegri mold og höfðu fengið tilbúinn áburð. Áhugavert væri að gera frekari rannsóknir á þessu.
Sem kunnugt er ber nú mjög mikið á birkiryði á Norðurlandi. Birki er víða orðið gulbrúnt í og við Eyjafjörð og Vaglaskógur er gulbrúnn yfir að líta sömuleiðis. Eftirtektarvert er þó hversu mismikið ryðið er eftir svæðum og jafnvel eftir einstökum trjám. Mun minna ryð er til dæmis sjáanlegt í Kjarnaskógi en í Vaðlareit handan fjarðarins og hafa menn velt fyrir sér hvort Vaglabirki kunni að vera viðkvæmara fyrir ryðinu en Bæjarstaðabirki sem víða hefur verið gróðursett, til dæmis í Kjarnaskógi. Vangaveltur eru líka um hvort tré sem vaxa á snauðari svæðum séu viðkvæmari en þau sem hafa frjóan jarðveg og gætu vísbendingarnar úr moltutilraununum stutt það.
Í reitum Sólskóga má m.a. sjá hraustlegan 'Hrym' sem umpottað hefur verið í moltublandaða mold.">
Í Mela- og Skuggabjargaskógi í Fnjóskadal er áberandi meira ryð í lægðum en uppi á hólum og hryggjum. Það kann að stafa af því að í lægðunum situr raki lengur en trén eru fljótari að þorna þar sem þau standa betur upp úr. Júlímánuður var mildur en rakur á Norðurlandi og það hefur væntanlega haft þau áhrif að ryðið sýni sig fyrr en venjulega en að jafnaði falla ryðskemmdirnar saman við haustlitina í september þannig að fólk verður ekki vart við þær.
Í öðrum landshlutum ber ekki mikið á birkiryði enn sem komið er. Af Suðurlandi berast þó þær fregnir að aspir séu óvenju mikið „ryðgaðar“, til dæmis í Þjórsárdal. Allar fregnir af ryðsvepp og annarri óværu á trjám eru ævinlega vel þegnar. Sömuleiðis reynslusögur um notkun moltu í trjárækt og hugsanleg áhrif moltunnar á útlit og heilbrigði trjánna.
Þessi bleika möggubrá eða margaríta var orðin gul á laufið fyrir hálfum mánuði
en varð aftur græn á fáeinum dögum þegar henni var umpottað í moltublöndu.">