Tré við götur fegra og veita skjól, binda ryk og deyfa hávaða.
„Ask veit ek standa…“ í sal GÍ 27. febrúar
Garðyrkjufélag Íslands og Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra halda málþing um trjágróður í þéttbýli í sal GÍ að Síðumúla 1, Reykjavík, föstudaginn 27. febrúar. Fundarstjóri verður Þuríður Backman, formaður Garðyrkjufélags Íslands.
Kristinn Þorsteinsson, fræðslu- og verkefnastjóri GÍ, flytur fyrirlestur sem hann nefnir Trjágróður í borg og bæ. Með trú og dirfsku brautryðjandans hafi orðið gífurlegar breytingar á gróðurfari í þéttbýli og í erindinu verði hugað að mörgu áhugaverðu sem fyrir augu ber þegar gengið er um í borg og bæ.
Hrafnkell Proppé, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðiisins heldur erindið Rótlaust tré stendur ekki stöðugt - um tré og skipulagsmál. Þar ræðir hann um stöðu trjáa í síkviku skipulagsumhverfinu og veltir vöngum yfir gildi trjáa í borgarumhverfi. Greint verður frá nýlegum niðurstöðum íbúakannana sem draga fram áhyggjur íbúa af grænum svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Komið verður inn á fjórðu víddina, tímann, sem lykilatriði í vexti trjánna sem borganna.
Því næst kynnir Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg, trjáræktarstefnu borgarinnar, stefnu sem samþykkt var í borgarstjórn en að því búnu fjallar Magnús Bjarklind, skrúðgarðyrkjutæknir hjá EFLU ehf., um ástand götutrjáa, m.a. í Reykjavík, hverjir séu helstu skaðvaldar og mögulegar hættur af völdum núverandi ástands. Einnig fjallar hann um nýjar leiðir í ræktun trjágróðurs við erfið skilyrði, m.a. takmarkað rótarrými.
Að loknu matarhléi ræða þau Einar Ó. Þorleifsson og Björk Þorleifsdóttir um söguleg og fágæt tré í Reykjavík, mikilvægi trjánna og gildi í borgarumhverfi ásamt verndargildi, skrásetningu og fræðslu. Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, fjallar um borgarskóginn, útbreiðslu trjágróðurs í Reykjavík, skógræktarskilyrði á höfuðborgarsvæðinu og þá þjónustu sem trén í borginni veita íbúum.
Götutré, borgarskógrækt og val á trjátegundum er heiti fyrirlesturs Samsonar Bjarnars Harðarsonar, lektors við LbhÍ og verkefnisstjóra Yndisgróðurs. Líf trjáa í borgum er hættuspil, segir hann. Borgartré lifi oft við erfiðar aðstæður, mengun, salt af götum, lítið rótarrými og þeim standi stöðug hætta af skemmdarvörgum, bílum, byggingarframkvæmdum og misviturlegum stjórnsýsluákvörðunum. Í erindinu verður fjallað um viðmið um val á trjátegundum í borgarumhverfi.
Loks kynnir Erla Bil Bjarnardóttir, umhverfisstjóri Garðabæjar, markmið um trjágróður í Garðabæ sem umhverfisnefnd setti og samþykkt var í mars 2014, fræðslu til íbúa um trjágróður á lóðum og árlega könnun trjágróðurs á lóðamörkum. Þuríður Backman, formaður Garðyrkjufélags Íslands, tekur svo saman efni málþingsins og að því búnu verður bókakaffi þar sem gestir geta kynnt sér bókasafn félagsins og mikið úrval bóka sem félagið hefur til sölu.
- Dagskrá þessi gæti tekið breytingum en hana má finna á vef Garðyrkjufélags Íslands, gardurinn.is.