Mánudaginn 31. janúar flytur Dr. Borgþór Magnússon erindi á vegum hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) sem nefnist ?Alaskalúpínan - Hvers erum við vísari??. Erindið verður flutt í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans, í stofu 132 og hefst kl. 17:15.

Myndin sýnir 4-5 ára gamlar lúpínubreiður sunnan við flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Mynd: Dennis A. Riege 2002.

Ræktun og notkun alaskalúpínu til landgræðslu hefur farið stigvaxandi undanfarna tvo áratugi. Þessi framandi tegund í gróðurríki landsins hefur reynst mikilvirk við uppgræðslu lands. Skiptar skoðanir hafa verið um ágæti lúpínunnar, notkun hennar og dreifingu um landið.
Árið 1988 voru hafnar á Rannsóknastofnun landbúnaðarins umfangsmiklar rannsóknir á vistfræði alaskalúpínu og stóðu þær um árabil. Markmið þeirra var að afla grunnþekkingar um tegundina til að sjá fyrir um áhrif af aukinni notkun og útbreiðslu hennar. Lokaniðurstöður rannsóknanna liggja fyrir og hafa nýlega verið birtar. Í erindinu verða dregnar saman helstu niðurstöður um frævistfræði og útbreiðsluhætti lúpínunnar, áhrif á gróðurfar, jarðvegslíf og frjósemi lands. Fjallað verður um kosti og galla tegundarinnar frá umhverfissjónarmiði og ábendingar gefnar um meðferð hennar.