Bert Cregg frá ríkisháskólanum í Michigan ræðir um áhrif tiltekinnar efnameðferðar á köngla- og spro…
Bert Cregg frá ríkisháskólanum í Michigan ræðir um áhrif tiltekinnar efnameðferðar á köngla- og sprotavöxt jólatrjáa.

Helstu vísindamenn á sviði jólatrjáarannsókna sækja ráðstefnuna

Í morgun hófst fræðileg alþjóðleg ráðstefna um jólatrjáarækt á Hótel Natur Svalbarðsströnd við Eyjafjörð. Þar eru samankomnir margir af helstu vísindamönnum á sviði jólatrjáarannsókna í heiminum og ræða um ræktunaraðferðir, kynbætur, sjúkdóma, meindýr og fleira. Ráðstefnan stendur fram á föstudag.

Ráðstefna þessi er haldin á tveggja ára fresti undir hatti IUFRO, alþjóðasamtaka rannsóknastofnana í skógvísindum. Hún hefur hingað til verið haldin til skiptis í Norður-Ameríku og Evrópu en fer nú fram á Íslandi í fyrsta sinn. Þátttakendur eru á fjórða tug talsins frá Bandaríkjunum, Kanada, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Austurríki, Suður-Kóreu og Ástralíu. Gestgjafi ráðstefnunnar að þessu sinni er Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá.


Dagskrá ráðstefnunnar er kaflaskipt. Fyrsta daginn er fjallað um vaxtar- og ræktunarskilyrði en einnig markaðsmál. Síðdegis verða skógarbændurnir í Reykhúsum í Eyjafirði heimsóttir og farið í Kjarnaskóg og gróðrarstöðina Sólskóga. Á morgun er sjónum beint að heilsu trjátegunda sem notaðar eru í jólatrjáaframleiðslu, m.a. sjúkdóma og meindýr.  Á miðvikudag verður haldið á Hólasand þar sem ráðstefnugestir fá að kynnast uppgræðslu- og skógræktarstarfi á örfoka landi en einnig verður litast um í Mývatnssveit. Á fimmtudag verður hugað að meðferð jólatrjáa eftir að þau eru felld, barrheldni og fleira, og því næst um erfðir og kynbætur jólatrjáa. Skoðunarferð á fimmtudag verður í Vaglaskóg þar sem fjallað verður um kynbætur á fjallaþin til jólatrjáaframleiðslu og ræktun lerkiblendingsins 'Hryms' til skógræktar.

Sem fyrr er getið eru á ráðstefnunni samankomnir margir af helstu vísindamönnum á þessu sviði í heiminum en einnig fulltrúar framleiðenda, t.d. ungur Ástrali sem er að hefja jólatrjáaframleiðslu í Ástralíu og Suður-Kóreumaður sem segir frá því hvernig spurn eftir jólatrjám eykst í heimalandi hans. Þarna er því statt fólk sem getur sagt undan og ofan af straumum og stefnum í jólatrjáarækt vítt og breitt um heiminn.

Dagskrá ráðstefnunnar.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson