Fantasy Island, stórsýning innlendra og erlendra listamanna verður opnuð í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum laugardaginn 19. júní. Sýningin er án efa einn stærsti listviðburður sem efnt hefur verið til á Austfjörðum en hún er liður í dagskrá Listahátíðar Reykjavíkur.
Myndin sýnir Þorstein Þórarinsson, starfsmann Skógræktar ríkisins á Hallormsstað, við smíðar á verki Þorvalds Þorsteinssonar. Í verkinu leggur Þorvaldur út frá skóginum sem sögusviði og vettvangi fyrir óútreiknanlega atburðarás með óbeinni tilvísun í ævintýrið um Rauðhettu.
Alls taka 8 myndlistarmenn þátt í sýningunni Fantasy Island en þeirra á meðal eru tveir af eftirtektarverðustu og þekktustu myndlistarmönnum samtímans, Bandaríkjamennirnir Jason Rhoades og Paul McCarthy. Þeir Rhoades og McCarthy hafa undanfarið unnið saman að stóru verki sem sett verður upp á Eiðum og á án efa eftir að vekja mikla athygli en þar er á ferðinni endurgerð þeirra á einni af verslunarmiðstöðvum Macy´s í Los Angeles í Kaliforníu. Aðrir sem taka þátt í Fantasy Island eru Björn Roth, Elin Wikström, Atelier von Lieshout, Hannes Lárusson, Katrín Sigurðardóttir og Þorvaldur Þorsteinsson. Öll hafa listamennirnir verið áberandi á vettvangi samtímalistar undanfarin ár og jafnvel áratugi. Rýmishugsun í fjölbreyttum myndum, oftast í samfélagslegu návígi einkennir vinnubrögð listamannanna ásamt óvæntu hugmyndaflugi og innri spennu.
Öll listaverkin á Fantasy Island eru ný og sérstaklega gerð fyrir sýninguna á Austurlandi og þá staðhætti sem umgjörð hennar býður upp á. Verkin spanna afar vítt svið myndrænnar hugsunar og hefur þróun þeirra og uppsetning staðið yfir hér á landi og erlendis síðustu mánuði. Í lok mai var opnuð á Skriðuklaustri í Fljótsdal sýning á frumgerðum og skissum verkanna sem sýnd eru á Fantasy Island.
Það eru Skógrækt ríkisins á Hallormsstað, Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri og Hannes Lárussonar myndlistarmaður sem standa saman að sýningunni en Hannes er jafnframt sýningarstjóri. Eiðar ehf. eru samstarfsaðili og Hekla Dögg Jónsdóttir hefur umsjón með framkvæmd sýningarinnar. Þá er einnig samstarf við listasmiðjuna Kling&Bang í Reykjavík en á vegum K&B verður opnuð sýning á nokkrum verkum þessara sömu listamanna í sýningarsal við Laugaveg nr. 23 á mánudag.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni verða allir viðstaddir opnunarhátíð Fantasy Island sem hefst klukkan 13:00 laugardaginn 19. júní í Trjásafninu í Hallormsstaðaskógi. Heiðursgestur við opnunina frú Dorrit Moussaieff forsetafrú opnar sýninguna en að lokinn athöfninni í Hallormsstað verður ekið með gesti yfir á Eiðar og sá hluti sýningarinnar sem þar er skoðaður. Sýningin Fantasy Island í Hallormsstað og á Eiðum verður opin til 1. október en sýningin á frumgerðum og skissum á Skriðuklaustri stendur til 25. júní.
Frekari upplýsingar:
Hannes Lárusson, s: 694 8108 og 552 5711 - Hekla Dögg Jónsdóttir, s: 899 9543
Þór Þorfinnsson, s: 471 1774 og 892 3535 - Skúli Björn Gunnarsson, s: 471 2990 og 860 2985
Um listamennina:
ATELIER VAN LIESHOUT (AVL) er fyrirtæki sem starfar á alþjóðavettvangi þar sem myndlist, hönnun og byggingarlist skarast. AVL var stofnsett árið 1995 af listamanninum Joep van Lieshout, sem þá hafði vakið athygli á vettvangi samtímalistarinnar um árabil. Áhersla er lögð á að öll verk sem koma frá AVL séu unnin af hópi skapandi einstaklinga en eigi ekki rætur að rekja til hugmynda eins einstaklings. Á undanförnum árum hefur AVL tekið þátt í flestum markverðustu sýningum á sviði samtímlistar sem haldnar hafa verið vestan hafs og austan. Verk Atelier Van Lieshout á Fantasy Island er unnið úr fyrirliggjandi skógarafurðum, velbyggðir og fallegir frístandandi tréskúlptúrar með kaldhæðnum undirtónum.
BJÖRN ROTH hefur verið í hringiðu samtímalistar undanfarna áratugi. Hann hefur fengist við flestar aðferðir myndlista allt frá kraftmiklum málverkum yfir í flókna gjörninga. Þá hefur Björn unnið mörg verk í samvinnu við föður sinn Diert Roth. Mörg þessara samvinnuverka eru afar umfangsmikil og margbrotin og takst á við margar af grundvallar spurningum í allri listsköpun af einstakri einurð. Sum þeirra hafa vakið heimsathygli s. s. verkin ? Ein Tagebuch? sem sýnt var á Feneyjatvíæringnum þar sem 40, 8mm sýningarvélar koma við sögu. Á Fantasy Island býr Björn Roth til einskonar þorp úr endurgerðum garðhúsum, gömlum nytjahlutum, týndum og gleymdum skúlptúrum auk nýrra hluta, þar sem æskuminningar og nútímaforsendur fléttast saman.
ELIN WIKSTRÖM hefur starfað sem prófessor í myndlist við Listaháskólann í Umeå undanfarin ár. Á liðnum árum hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga víðsvegar í Evrópu og hefur auk þess unnið að stórum verkefnum í Þýskalandi og Bretlandi og er með langtíma verk í vinnslu í Kambódíu. Við fyrstu sýn virðist listsköpun Elínar einskonar samfélagslegt prakkarastrik eða andfélagslegt athæfi. Við nánari skoðun kemur hins vegar í ljós að í verkum hennar er að finna meðvitaða samfélagsrýni sem oftar en ekki vekur með áhorfendum og vegfarendum, sem gjarnan sjá verk Elinar eins og af tilviljun, nýja vitund um samhengi hlutanna. Verk hennar varpa fram áleitnum spurningum um sjálfsvitund, frelsi og félagslegt taumhald. Í verki sínu á Fantasy Island skoðar Elin Wikström Hallormstaðaskóg og Ísland í alþjóðalegu samhengi og tengir það beint við Afrískar aðstæður og lífskjör.
HANNES LÁRUSSON hefur í gegnum árin fjallað um samhengi samtímalistar og þjóðlegs menningararfs, hlutverk og stöðu listamannins í þjóðfélaginu og tengsl handverks og hugmyndafræði. Hann er einn helsti gjörningamaður þjóðarinnar, drifkraftur í sjónrænni umræðu og höfundur margbrotinna verka, þar sem hugmyndafræði listarinnar mætir alþýðlegum sjónarmiðum og gildum hefðarinnar. Í verki sínu á sýningunni sviðsetur Hannes Lárusson, með gjörningum og innsetningu m. a. vanda og eðli framhliðar og bakhliðar.
KATRÍN SIGURÐARDÓTTIR skoðar í verkum sínum fjarlægð og minni og hvernig þessi fyrirbæri taka á sig form í byggingalist, skipulagi og kortagerð. Oft er gerð verkanna æfing minnisins, nokkurskonar staðlæg upprifjun. Staðirnir sem skapaðir eru, byggja gjarnan á raunverulegum stöðum, sem tákna heimili/heimaland. Þeir eru upphafsstaðir, áfangastaðir og endastöðvar, jafn smáir í fjarlægð tíma og rúms og módelin sem Katrín gerir af þeim. Hún hefur sýnt víðsvegar um Evrrópu og Norður-Ameríku. Í verki sínu á sýningunni myndar Katrín upplýsta hvelfingu sem er undir yfirborði jarðar, en formið byggir á stækkaðri útfærslu á litllum steini fundnum í Central Park í New York.
JASON RHOADES er vafalaust í hópi eftirtekaverðustu myndlistarmanna af yngri kynslóðinni í Bandaríkjunum um þessar mundir og sá sem hvað mestar vonir eru bundnar við, enda hafa verk hans verið sýnd á helstu listasöfnum og stórsýningum víða um heim. Jason hefur vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi fyrir efnismiklar innsetningar. Í innsetningar sínar notast Jason við alla hugsanlega miðla og blandar saman handgerðum verkum og aðkeyptum hlutum sem geta verið allt frá Ferrari bílum til niðurrifinna fatabúta sem seldir eru sem afþurrkunarklútar.
PAUL McCARTHY er einn af þekktustu núlifandi myndlistarmönnum í Bandaríkjunum og einn áhrifamesti frumkvöðull sinnar kynslóðar í myndlist en hann hefur verið mjög virkur í myndlistarheiminum í nær fjóra áratugi. Paul McCarthy hefur unnið með gjörninga og innsetningar þar sem hann setur upp einhverskonar söguþráð og notar búninga, grímur, leikbrúður og sérhannaða leikmynd. Í stað gerviblóðs skemmtiiðnaðarins notast hann við hversdagslegar neysluvörur s.s. mayones, tómatsósur og súkkulaði sem tákn fyrir líkamsvökva. Paul tekur fyrir mótsagnakennda og oft öfgafulla menningu Bandaríkjanna, nýtir sér draumkennt og veruleikafirrt uppeldisefni sjónvarpsins sem hann teflir gegn gráðugri, ofbeldisfullri og kynlífsþrunginni fjöldaafþreyingu fullorðinna.
Verkið sem þeir Jason Rhoades og Paul MacCarthy hafa unnið saman fyrir sýninguna er í vissum skilningi stór og grófur aðskotahlutur í ósnortinni náttúr en dregur um leið upp margslungna mynd af neyslumenningu samtímans.
ÞORVALDUR ÞORSTEINSSON er einn fjölhæfasti og afkastamesti listamaður Íslands. Hann virðist jafnvígur á myndlist sem ritlist og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á báðum sviðum. Þó verksvið hans sé fjölþætt og spanni allt frá skáldsögum, leikritum, verkum fyrir sjónvarp og útvarp auk myndlistar af fjölþættum toga, þá leyna höfundareinkennin sér ekki. Verk Þorvaldar byggja jafnan á næmri tilfinningu fyrir hegðun og breytni fólks og miða oft, með beinum eða óbeinum hætti, að virkri þátttöku áhorfandans. Í verkunum er jafnan að finna mikla sköpunargleði, útsjónarsemi og léttleika í bland við afhjúpandi og gagnrýna nálgun við mannlegt eðli og mannlegt samfélag. Í verki sínu á sýningunni í Hallormsstað leggur Þorvaldur Þorsteinsson út frá skóginum sem sögusviði og vettvangi fyrir óútreiknanlega atburðarás með óbeinni tilvísun í ævintýrið um Rauðhettu.