Vernda ber jarðvegsauðlindina, segir forseti FAO

Alþjóðlegu ári jarðvegs hjá Sameinuðu þjóðunum var formlega ýtt úr vör 5. desember á alþjóðlega jarðvegsdeginum. Athöfnin fór fram í höfuðstöðvum FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar S.þ., í Róm. Hátíðahöld voru í New York, Santiago og Bangkok af þessu tilefni.

Athöfnin í Róm bar enska titilinn „Soils, a foundation for family farming“ sem útleggja mætti á íslensku sem „jarðvegur, grundvöllur fjölskyldubúskapar“. José  Graziano da Silva, forseti FAO, ávarpaði samkomuna og áréttaði hversu miklu máli heilbrigður jarðvegur skipti svo tryggja mætti mannkyninu næga fæðu og fullnægjandi næringu en einnig til að berjast gegn loftslagsbreytingum og stuðla vítt og breitt að sjálfbærri þróun. Hann benti líka á að jarðvegi væri lítill gaumur gefinn þrátt fyrir það hversu nauðsynlegur hann væri. Fólk gætti ekki að fjölþættu hlutverki hans. Jarðvegurinn hefði enga rödd og fáa talsmenn. Hann væri þögull samherji okkar í fæðuframleiðslunni.

Jarðvegur og fjölskyldubúskapur

José  Graziano da Silva lagði áherslu á það beina samhengi sem væri milli búskapar bændafjölskyldna og jarðvegs. Þar beindi hann athyglinni sérstaklega að hefðbundnum búskap á fjölskyldubúum líkt og er ráðandi í landbúnaði á Íslandi til dæmis. Nauðsynlegt væri að styðja slíka bændur til að byggja upp jarðveg. „Við verðum að meðhöndla jarðveg með sjálfbærum hætti,“ sagði hann. Margar leiðir væru færar, svo sem skiptiræktun mismunandi tegunda nytjajurta eins og væri stunduð víða á fjölskyldubúum um allan heim. Í slíkri ræktun hefðu mikilvæg næringarefni möguleika til að endurnýjast í jarðveginum. Þetta væri eitt dæmi af mörgum um hversu miklu máli landbúnaður á fjölskyldubúum skipti fyrir fæðuframleiðslu heimsins, verndun náttúruauðlinda og líffjölbreytni.

fao

Jarðvegi er ógnað á jörðinni með sístækkandi borgum, skógareyðingu, ósjálfbærri landnýtingu og nýtingaraðferðum, mengun, ofbeit og loftslagsbreytingum. Hraði jarðvegseyðingar á jörðinni ógnar möguleikum komandi kynslóða til að brauðfæðast. Aðalmarkmið alþjóðlega jarðvegsársins er að vekja athygli mannkynsins á mikilvægi heilbrigðs jarðvegs og að tala fyrir sjálfbærri nýtingu svo takast megi að vernda þessa mikilvægu náttúruauðlind.

Við þessa formlegu opnun alþjóðlega jarðvegsársins í Róm voru haldin nokkur ávörp. Þar töluðu fulltrúar ríkisstjórna, vísindafólks, alþjóðasamtaka og einkafyrirtækja. Einhugur var um að allir þessir hagsmunaaðilar ættu að standa saman og starfa í sameiningu að því að alþjóðlegt ár jarðvegs tækist sem best.

Árið 2013 var ár kínóaplöntunnar hjá FAO og nýliðið ár var ár fjölskyldulandbúnaðar. Við starfið að þeim verkefnum sem unnið var að á þessum tveimur árum mynduðust ýmis mikilvæg tengsl sem nýtast munu á ári jarðvegsins sem nú er hafið. Þar verður í fyrirrúmi samhengi jarðvegs við fjölskyldubúskap. Þetta samhengi er augljóst. Fjölskyldubúskapur stendur og fellur með nýtilegum jarðvegi og heilbrigði jarðvegsins stendur og fellur með því hvernig um jarðveginn er gengið. Hvort er háð öðru. Og mannkynið þarfnast hvors tveggja, heilbrigðs landbúnaðar og heilbrigðs jarðvegs, bæði tli að tryggja sjálfbæra matvælaframleiðslu og trygga framtíð mannkyns.

Táknrænar jarðvegssúlur

Við umrædda athöfn í Róm færðu H.E. Surapit Kirtiputra, sendiherra Taílands á Ítalíu, og Peter Bartha, fulltrúi landbúnaðarráðuneytis Ungverja, forseta FAO þrjár innrammaðar súlur gerðar úr jarðvegi sem tákn um vilja landa sinna til afreka á nýbyrjuðu alþjóðlegu ári jarðvegs.

Verk að vinna á Íslandi

Ísland er eitt þeirra landa í heiminum sem tapað hafa hvað mestu af jarðvegi sínum vegna ósjálfbærrar nýtingar landsins. Hér er mikið verk að vinna við að byggja upp aftur sjálfbæra jarðvegsauðlind. Skógrækt er einhver áhrifaríkasta leiðin til þess og íslenskt skógræktarfólk hefur sýnt fram á þetta með verkum sínum. Með skógrækt er hægt að efla íslenskan landbúnað, byggja undir trausta byggð í sveitum landsins, auka afrakstur ladnsins og tekjur bænda. Skógarvistkerfi elur af sér líffjölbreytni sem gagnast bæði þeirri búfjárrækt sem stunduð er á viðkomandi búi og eykur framleiðni í akuryrkju. Skógarnir laða að sér fugla, eru búsvæði ýmissa smádýra, sveppa og örverulífs, þeir veita skjól, hægja á rennsli vatns, hamla gegn jarðvegsrofi og þannig mætti áfram telja.

Texti: Pétur Halldórsson