Hlutverk skóganna mikilvægt í loftslagsmálunum

Á þessu ári eru ofarlega á baugi í heiminum alþjóðlegir samningar sem snerta framtíð skóga jarðarinnar.

Á samráðsvettvangi Sameinuðu þjóðanna um skóga, United Nations Forum of Forests er stefnt að alþjóðlegum sáttmála um skógarmál sem kallaður er International Arrangements on Forestry. Á vegum matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, verður fjórtánda heimsþing skógræktar, World Forestry Congress, haldið dagana 7.-11. september í haust í Durban í Suður-Afríku. Þar koma fulltrúar skógargeirans hvaðanæva úr heiminum til að ræða og kafa ofan í helstu viðfangsefnin sem við er að glíma og deila með sér leiðum og lausnum. Í lok nóvember og fram í desember verður svo loftslagsráðstefnan mikla í París þar sem vonast er til að þjóðir heims nái saman um nýjan sáttmála um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum. Ljóst er að hlutverk skóga verður mikilvægt í þeim efnum.

Slagorð alþjóðlegs dags skóga er að þessu sinni Create a Climate Smart Future og felur í sér hvatningu um að við búum okkur framtíð sem felur í sér skynsamlegar lausnir í loftslagsmálum. Þetta kemur skýrt fram í myndbandi sem FAO send frá sér í tilefni dagsins.

Alþjóðasamtök skógareigenda, International Family Forestry Alliance, vekja athygli á þessu öllu á alþjóðlegum degi skóga í dag, 21. mars. og hafa hvatt til þess að fólk sinni málefninu með einhverjum hætti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað fyrir fáeinum árum að helga skógum jarðar þennan dag til að auka vitund jarðarbúa um mikilvægi skóga fyrir lífið á jörðinni. Hér fyrir neðan eru hlekkir á efni sem forvitnilegt er að skoða í tilefni dagsins og neðst er myndasyrpa Skógræktar ríkisins með skilaboðum um skóga og skógrækt á Íslandi á tímum loftslagsbreytinga.

Texti: Pétur Halldórsson

https://www.youtube.com/watch?v=2X7EI-9KgRU