Rajendra K. Pachauri, Erik Eid Hohle og Svein Tveitdal
Endurnýjanleg orka til dreifbýlissamfélaga um allan heim
Indverska stofnunin TERI og norska fyrirtækið Energigården hafa nú formlega stofnað alþjóðlegan sjóð um orkubú, The International Energy Farm Foundation, skammstafað EFIF. Á stofnfundi sem haldinn var á mánudag var Dr. Rajendra K. Pachauri kosinn formaður. Pachauri er yfirmaður og einn stofnenda TERI og hefur verið formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2002. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2007.
TERI stendur fyrir The Energy and Resources Institute. Stofnunin var sett á fót á Indlandi árið 1974. Henni er ætlað að vinna að sjálfbærri nýtingu orku og náttúruauðlinda í þágu alls mannkyns með áherslu á staðbundin verkefni þannig að samfélög á hverjum stað eða svæði geti orðið sjálfum sér næg um orku í stað þess að treysta á aðkeypta orku eða orkugjafa. TERI er stærsta stofnun í þróunarlöndunum sem starfar að sjálfbærri þróun og vinnur að staðbundnum verkefnum sem miða að því að leysa alþjóðleg vandamál. Stofnunin hefur sett á fót starfstöðvar í Bengaluru, Goa, Guwahati, Mumbai og Himalaya-fjöllum.
Dr. Pachauri skrifaði undir stofnskjal TERI ásamt Erik Eid Hohle, forstjóra Energigården, og undirritunin fór fram á skrifstofu forseta norska stórþingsins, Olemic Thommesens, að loknum fundi í utanríkisráðuneytinu mánudaginn 11. ágúst.
Erik Eid Hohle hefur um árabil starfað að málum sem tengjast orkunýtingu og endurnýjanlegri orku. Hann hefur verið fremstur í flokki við að byggja upp Energigården þar sem unnið er að málefnum sem snerta endurnýjanlega orkugjafa, ekki síst lífeldsneyti eins og orku úr skógviði, en líka bætta orkunýtingu. Í fréttatilkynningu frá Energigården segir Hohle það mikinn heiður að njóta samstarfs við TERI, eina fremstu stofnun heims í rannsóknum og þróun endurnýjanlegrar orku, nýtingu auðlinda og loftslags- og mengunarmálum. Sjóðurinn sem nú hefur verið stofnaður sé ávöxtur af annars vegar samstarfi Energigården og TERI, sem hófst í ágúst á síðasta ári, og hins vegar af þeirri framtíðarsýn um orkubú sem Dr. Pachauri setti fram í yfirlýsingu í febrúar síðastliðnum á árlegri ráðstefnu um sjálfbæra þróun í Dehli. Hohle segir að Pachauri hafi lengi hrifist af því starfi sem unnið er í Energigården og lýst því fyrirtæki sem snilldarhugmynd, „a brilliant concept“.
Meiningin er að EFIF komi upp miðstöðvum um orkubúskap eða orkubúum um allan heim. Þannig verði til alþjóðlegt þróunar- og samstarfsnet um endurnýjanlega orku, svæðisbundna orkuframleiðslu og bætta orkunýtni í dreifbýlissamfélögum. Þessi orkubú eiga að framleiða og nýta endurnýjanlega orku og leggja áherslu á nýjustu tækni í sólar- og líforkutækni. Einnig eiga þær að miðla þekkingu og tæknilausnum fyrir smærri orkuver sem nýta endurnýjanlega orku. Þetta á að leiða til þess að dregið verði úr bruna jarðefnaeldsneytis. Með því að teikna upp umhverfislega og efnahagslega sjálfbær kerfi sjá menn fyrir sér að EFIF geti stuðlað að því að þeir þrír milljarðar jarðarbúa sem enn þurfa að reiða sig á fast eldsneyti til upphitunar og eldamennsku hafi kost á endurnýjanlegri orku í staðinn og hægt verði að útvega rafmagn þeim 1.200 milljónum jarðarbúa sem enn búa við rafmagnsleysi.
Talið er víst að uppbygging orkukerfa með endurnýjanlegri orku í dreifbýli auki framleiðni, dragi úr fátækt og skapi ný tækifæri fyrir sjálfbær samfélög. Fyrsta orkumiðstöðin af þessum toga er ráðgert að rísi í Kenía. Í sveitarfélagi í suðvestanverðri Úkraínu verður komið upp miðstöð í nánu samstarfi við fjárfesta og yfirvöld heima fyrir. Einnig er unnið að undirbúningi miðstöðvar í Míanmar. EFIF mun starfa með viðurkenndum þekkingarstofnunum og samfélögum um allan heim að því að búa til verðmæti og ýta á eftir þróun í byggðarlögum en einnig að stuðla að jákvæðum viðhorfum í loftslagsmálum og öðrum umhverfismálum.
Energigården í Noregi verður heimavöllur sjóðsins og stjórnar hans. Aðalbækistöðvar Energigården eru í Røykenviklinna, um klukkustundar akstur norður frá Ósló. Energigården var sett á fót árið 1991 svo þar hefur þegar safnast mikil reynsla um endurnýjanlega orku. Stofnunin hefur komið upp 22 líforkustöðvum á Haðalandi og tekur líka þátt í SUSTAINCO 2012-2015, verkefni á vegum Evrópusambandsins sem styður við þróun endurnýjanlegra orkukerfa í dreifbýli. Dr. Pachauri segir að hér séu ómæld tækifæri, bæði til að gera litlum samfélögum í þróunarríkjunum kleift að koma upp sínum eigin orkuverum og fyrir staðbundin samfélög um allan heim að taka upp endurnýjanlega orku í stað mengandi jarðefnaeldsneytis.
Fólkið á bak við EFIF: Martin Kristensen, Erik Eid Hohle,
Dr. R K Pachauri, Anni Onsager, Svein Tveitdal, Ekta Jaine
og Hrefna Jóhannesdóttir.