Tækifæri til að tileinka sér nýjustu tól og tækni

Á alþjóðlegum sumarskóla um skógrækt sem haldinn verður í Waterford á Írlandi 19.-23. júní í sumar verður farið yfir öll nýj­ustu tól og tæki sem nýtast við skógrækt, allt frá áætlunum til nytja.

Sumarskólinn er á vegum EFIATLANTIC og tækni­stofnunarinnar í Waterford,  Waterford Institute of Technology (WIT). EFIATLANTIC er Atlantshafssvið skógar­stofnunarinnar EFI sem  vinnur að rann­sóknum og miðlar upplýsingum um sjálf­bæra nytjaskógrækt með sérstaka áherslu á svæðin með fram ströndum Atlants­hafs­ins frá sunnanverðu Portúgal norður til Skot­lands. Sumar­skól­inn er undir hatti sér­stakrar atgervis­áætlun­ar,  EFIATLANTIC Capacity Building Programme.

Lögð verður sérstök áhersla í sumarskólanum á að veita góða grunnþekkingu með sýnikennslu og þjálfun í notkun nýjustu tóla og tækni sem nýtist fagfólki í skógrækt. Nemendur fá að kynnast því nýjasta í þeim kerfum sem þegar eru í boði ásamt ýmsum nýjungum sem eru að líta dagsins ljós. Markmiðið er að nemendur geti byggt alla sína vinnu og ákvarðanir á sem traustustum grunni, hvort sem er á stigi áætlanagerðar, skógarumhirðu eða nytja.

Hluti af náminu verður vettvangsþjálfun þar sem beitt verður nýjustu tólum og tækni við trjámælingar, mat á vaxtarlagi og viðargæðum, úttektir á reitum með standandi skógi og greiningu á landi til gróðursetningar. Unnið verður með kortlagningarkerfi sem nýta má til að teikna upp stór svæði með hjálp loftmynda sem teknar eru ýmist með drónum, flugvélum eða gervitunglum.

Á vinnustofum tæknistofnunarinnar í Waterford fá nemendur tækifæri til að vinna sjálfir áfram með landupplýsingarnar í tengslum við vaxtarmódel, hagkvæmnisútreikninga, áhættugreiningu, gæði lands, landsskógarúttektir og önnur opinber upplýsingakerfi.

Sumarskólinn í Waterford er einkum ætlaður skógfræðingum, skógræktarráðgjöfum, eigendum og stjórnendum í skógrækt, þeim sem vinna að opinberri stefnumótun um skógræktarmál og framhaldsnemum í skógfræði.

Írska skógfræðingafélagið,Society of Irish Foresters, veitir tveimur fagmönnum sem eru að hefja starfsferil sinn á skógarsviðinu styrk til náms í sumarskólanum. Skólanefndin velur þessa tvo einstaklinga úr skráðum þátttakendum.

Gisting og fæði er í boði í húsum tæknistofnunarinnar í Waterford og séð verður fyrir akstri milli flugvallar og skólans.


Heimild: EFIATLANTIC
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson