Vilja binda kolefni með ódýrari hætti
(Morgunblaðið, þriðjudaginn 11. apríl, 2006)

AÐALFUNDUR Skógfræðingafélags Íslands hefur beint þeirri tillögu til landbúnaðarráðherra "að sem fyrst verði gerð heildstæð stefnumótun um skógrækt á Íslandi. Mikilvægt er að við þá vinnu verði litið til nágrannaþjóða á Bretlandseyjum sem hafa um margt hliðstæða skógræktarsögu og Ísland".

Einnig lýsti aðalfundur yfir "sérstakri ánægju með að nýtt skógfræðinám við Landbúnaðarháskóla Íslands hefur verið tekið upp og óskar skólanum góðs gengis með þessa nýju braut. Félagið hefur áfram áhuga á að taka þátt í mótun brautarinnar ef eftir því verður leitað".

Þá benti fundurinn á "að vegna sérstakra aðstæðna á Íslandi eru miklir ónýttir möguleikar til bindingar kolefnis og með skógrækt má binda kolefni með talsvert ódýrari hætti en með því að kaupa kolefniskvóta á alþjóðlegum markaði miðað við það gangverð sem er í dag. Félagsmenn telja brýnt að embættismenn skoði þessa leið af fullri alvöru".