Fyrsta norræna ráðstefnan um konur og skógrækt verður haldin í Svíþjóð 2019. Í byrjun júní 2018 verður undirbúningsfundur á Íslandi og þá er stefnt að stofnun samtaka íslenskra skógarkvenna. Myndin er af frétt á vef Kvinner i skogbruket um fundinn sem haldinn var um síðustu helgi.
Stefnt að stofnun skógarkvennasamtaka á Íslandi á næsta ári
Þriggja daga vinnufundi um jafnrétti og fjölbreytni í norræna skógargeiranum lauk á sunnudag með þátttöku tveggja fulltrúa frá Skógræktinni, Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur, sviðstjóra skógarauðlindasviðs, og Eddu S. Oddsdóttur, sviðstjóra rannsóknasviðs. stefnt er að því að halda norræna ráðstefnu um konur og skógrækt á hverju ári í tíu ár og sú fyrsta verði í Svíþjóð 2019. Einnig er stefnt að stofnun skógarkvennasamtaka á Íslandi á næsta ári.
Eins og sagt var frá hér fyrir nokkru á skogur.is veitti NIKK, norræn upplýsingamiðstöð um kynjajafnrétti, styrk til verkefnis sem Skógræktin tekur þátt í ásamt norsku samtökunum Kvinner i skogbruket, Spillkråkan í Svíþjóð og norsku háskólastofnuninni KUN sem starfar að jafnréttismálum. Markmið verkefnisins er að virkja fleiri konur og ungt fólk til að hasla sér völl í skógargeiranum.
Fundinn sátu auk þeirra Sigríðar Júlíu og Eddu tvær konur frá Svíþjóð og sex frá Noregi. Á föstudag kynnti hópurinn sér starfsemi norska skógræktarfélagsins, Det norske Skogselskapet, og samband norskra skógareigenda, Norges Skogeierforbund, þar sem rætt var við framkvæmdastjórann, Erik Lahnstein, um viðfangsefnin í norskri skógrækt um þessar mundir. Á báðum þessum stöðum var líka rætt um jafnréttismál í skógargeiranum.
Skógarkvennasamtök í Svíþjóð og Noregi
en ekki á Íslandi og í Finnlandi
Á laugardag og sunnudag voru vinnufundir í húsakynnum norska skógræktarfélagsins. Í upphafi var kynnt starfsemi samtakanna Spillkråkan og Kvinner i skogbruket. Enn sem komið er eru engin samtök íslenskra skógræktarkvenna starfandi en í bígerð er að stofna til þeirra og það sama má segja um Finnland.
Áhugi er á því að festa þetta samstarf í sessi með formlegum og bindandi sáttmála skógarkvenna, fyrst í stað milli þessara þriggja landa en vonir standa til að finnskar konur bætist í hópinn í kjölfarið. Haldin verði ráðstefna á hverju ári næstu tíu árin og þangað verði þátttakendum boðið frá öllum Norðurlöndunum. Löndin skiptist á að halda ráðstefnuna en sú fyrsta er ráðgerð í Svíþjóð 2019. Þá verða samtökin Spillkråkan gestgjafinn. Undirbúningsfundur fyrir þá ráðstefnu verður haldinn á Íslandi 1.-3. júní 2018 og í tengslum við hann er ætlunin að stofna íslensk skógarkvennasamtök.
Ísland lengra komið
en Noregur og Svíþjóð
Í ljós kom á fundinum að langt er í land að jafnrétti sé náð í skógargeiranum í Svíþjóð og Noregi en á Íslandi virtust hlutirnir komnir lengra á veg. Rætt var um hvaða markmið skyldi setja í þessu starfi. Þar ber hæst að fjölga þurfi konum sem ráðast til starfa í skógargeiranum á Norðurlöndunum og sjá til þess að þær endist í starfi. Þetta styrki ímynd starfsgreinarinnar og fjölgun kvenna er líka talin ýta undir þróun sjálfbærrar skógræktar á Norðurlöndum. Fjölgun kvenna á þessu sviði stuðli að aukinni nýsköpun, auknu jafnrétti og styrki stöðu kvenna meðal skógareigenda í löndunum. Jafnframt er talin þörf á að styrkja konur í röðum skógareigenda sem stjórnendur.
Markhóparnir sem sjónum verður beint að á komandi ráðstefnum eru konur í röðum skógareigenda, konur í stjórnunarstöðum í skógargeiranum, konur sem vinna með skóg á einhvern hátt, konur sem áhuga hafa á skógrækt og ungar konur en líka almenningur, stjórnmála- og embættisfólk. Eftir á að koma í ljós hver áhuginn verður á þessum ráðstefnum hvernig skipulag þeirra verður, til dæmis hvort þörf verður á að skipuleggja fleiri en eina málstofu samtímis um mismunandi efni sem þá mætti nota til að höfða til mismunandi hópa svo hver hópur hafi sem mest gagn af. Auk ráðstefnanna var rætt að tengja þetta starf við aðra stóra viðburði í skógargeiranum eins og Fagráðstefnu skógræktar á Íslandi, kaupstefnuna Elmia Wood, Skog og tre, skógardagar, skógarvikur og fleira.
Niðurstaðan varð sú að við undirbúning fyrstu ráðstefnunnar yrði einblínt á konur í röðum skógareigenda, konur í stjórnunarstörfum í skógargeiranum, konur í röðum almennra starfsmanna, konur sem áhuga hafa á skógrækt og enn fremur að auka áhuga ungra kvenna á greininni. Haldnir verða fyrirlestrar og efnt til umræðna um fjölbreytileg málefni og sömuleiðis er ráðgert að skipuleggja hagnýt námskeið, svo sem keðjusagarnámskeið.