Mynd:  Asparglyttur á alaskaösp við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá

 

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur nýtt skordýr, asparglytta (Phratora vitellinae) fundist í skógunum við Mógilsá.  Asparglyttan, sem eins gæti heitið víðiglytta, er bjöllutegund af laufbjallnaætt og er þekkt meindýr á trjám af víðiætt.  Kvikindið er alþekkt vandamál á Bretlandseyjum og víðar.  Asparglyttunnar varð fyrst vart í einhverju mæli á Mógilsá síðastliðið sumar þegar hún át upp viðjurunna í nágrenni rannsóknastöðvarinnar.  Þá fannst hún einnig á öspum og í ár hefur hún fært sig í enn meira mæli yfir á aspir, og hefur verið sérstaklega skæð á blæösp.  Hins vegar hefur hún ekki haft jafn mikil áhrif á alaskaösp þó hún leggi sér hana til munns.  Auk skógræktarinnar á Mógilsá, hefur asparglyttan fundist við Leirvogsá og í skógræktarreit skógræktarfélags Mosfellinga við Hamrahlíð.

Ekki er vitað hvernig eða hvenær asparglyttan barst til landsins, en að sögn Guðmundar Halldórssonar, skordýrafræðings, fundust lirfur sem e.t.v. voru lirfur asparglyttunnar í garði á Kjalarnesi í kringum 1995.  Hvað það er sem veldur því að asparglyttan hefur fjölgað sér í jafn miklu mæli og raun ber vitni á Mógilsá er heldur ekki vitað.  Ekki er ólíklegt að veðurfar hafi þar einhver áhrif en niðurstöður frá Finnlandi benda til þess að köld og vætusöm vor hafi áhrif á þroskun lirfunnar.  Asparglyttan liggur í vetrardvala sem fullorðið dýr og þá jafnan í skjóli, svo sem undir berki dauðra trjábola og er því snögg af stað þegar hlýna tekur á vorin.  Lífsferill hennar hér á landi er óþekktur en í Finnlandi vakna fullorðin dýr úr dvala seinnipartinn í maí eða byrjun júní, leggjast á tré af víðiætt og verpa eggjum í 3-4 vikur.  Eggin klekjast út á 5-8 dögum og lirfan orðin fullþroskuð innan 14-21 dags.  Hún skríður svo niður að rótum plantnanna og púpar sig.  Þó svo að þekkt séu dæmi um þrjár kynslóðir á sumri í Mið-Evrópu, benda rannsóknir til þess að á norðlægari slóðum sé einungis ein kynslóð á ári og athuganir á lífsferli hennar á Mógilsá benda til þess að svo sé einnig hér.

Það er ljóst að asparglyttan getur valdið miklum skaða á plöntum af víðiætt.  Þrátt fyrir að engar rannsóknir hafi farið fram á því hérlendis hvaða plöntur bjallan leggst á sýna erlendar rannsóknir að bjöllurnar velja frekar plöntur sem innihalda mikið af salicyl sykrum.  Lausleg athugun á Mógilsá bendir til þess að bjallan leggist einkum á blæösp, viðju, gulvíði og alaskaösp.  Hins vegar virðast plönturnar verða fyrir mismiklum skemmdum.  Þannig hafa verið talsverðar skemmdir á blæösp en alaskaösp virðist þola ágang asparglyttunnar mun betur. Sömuleiðis virðist vera klónamunur a.m.k. innan alaskaaspar og gulvíðis.

Texti og mynd: Edda S. Oddsdóttir, Mógilsá

Sjá einnig grein Erlings Ólafssonar á vef Náttúrufræðistofnunar