sést jafnvel þekja heilu húsveggina

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að mikill fjöldi asparglyttu hafi verið áberandi í haust. Hann hafi fengið sendar myndir af fólki sem sýna glyttuna í hundraðatali. Morgunblaðið fjallaði um málið um helgina og frétt blaðsins er á þessa leið.

Óvenju mikið hefur sést af asparglyttu í haust og gætu það verið vond tíðindi fyrir þá sem rækta ösp og víði. Glyttan étur laufblöð af þessum tegundum og kraftmikill árgangur gæti ráðist á blöðin næsta sumar. Ekki er þó útséð með hvernig veturinn fer með asparglyttuna.

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir að þessi gríðarlegi fjöldi af asparglyttum hafi verið áberandi í haust.

Fyrirspurnir daglega

„Ég fæ fyrirspurnir daglega um þessa fallegu grænleitu laufbjöllu og fólk hefur verið að senda mér myndir þar sem hún er í hundraðatali og þekur jafnvel heilu húsveggina. Glyttan er nýlegur landnemi og hafði fjölgað hressilega á áratug, en menn hafa aldrei séð annað eins og núna í haust,“ segir Erling.

Hann segir að þessa dagana sé asparglyttan að hægja á líkamsstarfseminni og síðan leggist hún í vetrardvala. Þær sé oft að finna í bunkum, gjarnan undir berki ágömlum trjám, á bak við þiljur timburhúsa eða undir lurkasafni á jörðinni svo dæmi séu tekin. Lengi vel hafi engin meinsemd verið á ösp, en það breyttist þegar asparglyttan kom til landsins. Tegundin var fyrst staðfest 2005 í trjárækt Skógræktarinnar á Mógilsá í Kollafirði.

Gæti orðið alvarleg meinsemd

Asparglytta getur farið illa með víðihekk og aspir og étið upp blöðin. Á pödduvef Náttúrufræðistofnunar er hægt að fræðast um asparglyttuna og segir þar að um sé að ræða nýtt meindýr hér á landi, „sem mun væntanlega leggja undir sig garða á höfuðborgarsvæðinu og víðar á næstu árum og gæti orðið alvarleg meinsemd á öspum og víði“.

aij@mbl.is