Eins fram kom á síðasta ári hefur nýtt skordýr, asparglytta (Phratora vitellinae) fundist í skógunum við Mógilsá.  Asparglyttan, sem eins gæti heitið víðiglytta, er bjöllutegund af laufbjallnaætt og er þekkt meindýr á trjám af víðiætt. Kvikindið er alþekkt vandamál á Bretlandseyjum og víðar. Asparglyttunnar varð fyrst vart í einhverju mæli á Mógilsá sumarið 2005 þegar hún át upp viðjurunna í nágrenni rannsóknastöðvarinnar. Þá fannst hún einnig á öspum og hefur verið sérstaklega skæð á blæösp. Hins vegar er ekki að sjá að aspirnar hafi hlotið neinn skaða af og þau tré sem verst urðu fyrir barðinu á asparglyttunni hafa öll laufgast eðlilega í vor. 

Ekki er vitað hversu lengi asparglyttan hefur verið á landinu. Þar sem óvenju hörð frost komu á síðasta vetri, mátti gera ráð fyrir að hann væri prófsteinn á það hvort skordýrið væri komið til að vera. Ekki ber á öðru en að svo sé, þó nokkuð er af bjöllum á viðjurunnum en minna er komið á ösp.Auk skógræktarinnar á Mógilsá, fannst asparglyttan við Leirvogsá og í skógræktarreit skógræktarfélags Mosfellinga við Hamrahlíð á síðasta ári en búast má við því að hún dreifist enn frekar á næstu árum.


Edda Oddsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknastöð Skógræktar ríksins, Mógilsá. Sími 8924503