Rætt við Halldór Sverrisson í tilefni af 50 ára afmæli Mógilsár
Skógardagur verður á morgun á Mógilsá við Kollafjörð í tilefni af því að 50 ár eru um þessar mundir frá því að Rannsóknastöð skógræktar tók þar til starfa. Nokkuð hefur verið fjallað um skógræktarrannsóknir í fjölmiðlum síðustu daga vegna þessa og í Morgunblaðinu í dag er rætt við Halldór Sverrisson, sérfræðing á Mógilsá, sem unnið hefur ötullega að því undanfarin ár að kynbæta þann efnivið alaskaaspar sem notaður er í skógrækt á Íslandi.
Halldór er hógvær og vill ekki tala um ofurösp þótt það orð hafi verið notað í hálfkæringi meðal skógræktarfólks. Árangurinn er góður hvað sem öðru líður og útlit fyrir að komnir séu fram asparklónar sem bæði vaxa mjög vel, mynda mikinn við og eru lítt útsettir fyrir sveppasjúkdómnum asparryði.
Umfjöllun Morgunblaðsins er á þessa leið:
Góður árangur hefur náðst í tilraunum með kynbætur á alaskaösp og reikna má með að skógarbændur og aðrir geti nálgast þær í gróðrarstöðvum eftir nokkur ár. Markmiðið með þessum tilraunum var að finna klóna sem hefðu mikla mótstöðu gegn asparryði og kali, hefðu mikinn vaxtarhraða og einnig mikinn viðarmassa.
Halldór Sverrisson, sérfræðingur í plöntusjúkdómum og kynbótum trjáa á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, segist ekki vilja tala um ofuraspir í þessu sambandi, en verkefnið hafi vissulega gengið vel. Þó svo að ekki hafi verið gerðar marktækar samanburðatilraunir hafi margar aspir í tilrauninni haft meiri mótstöðu gegn ryði en aspir almennt og ættu að geta vaxið betur en þeir klónar sem hafa verið í notkun.
„Úrvali úr afkvæmatilraunum var safnað um allt land og efnilegar 5-7 ára aspir voru settar í safn. Núna er staðan sú að við erum byrjuð að velja nokkra af þessum klónum eða einstaklingum til fjölgunar á Tumastöðum í Fljótshlíð. Við gerum ráð fyrir að þessar aspir séu vel aðlagaðar að veðurfarinu á Íslandi og ættu að geta staðið sig vel víðast hvar á landinu,“ segir Halldór.
Ryð, bjöllur og fiðrildi boðflennur í ræktun trjáa
Asparryð er sveppasjúkdómur sem barst til landsins skömmu fyrir aldamótin. Það varð í raun til þess að þetta kynbótaverkefni fór af stað fyrir 15 árum. Í fyrrasumar var ryð í öspum áberandi og olli víða tjóni, en Halldór segir að í ár hafi asparryð verið seinna á ferðinni heldur en ífyrra, enda hafi verið svalt framan af sumri. Mögulega verði minna um ryð en í fyrra, en það sé þó árvisst að þess verði vart í uppsveitum á Suðurlandi og austur á Kirkjubæjarklaustur, en í Skaftafellssýslum sé mun minna um aspir heldur en í Árnessýslu.
Af öðrum boðflennum sem valda tjóni í skógrækt má nefna bjölluna asparglyttu sem veldur tjóni á laufi viðju og víðis en einnig aspar. Hennar varð með vissu fyrst vart hér á landi á Mógilsá 2005 og að sögn Halldórs er hún að breiðast út, en er þó enn bundin við Suðvestur- og Suðurland.
Birkikemba er smávaxið fiðrildi sem fannst fyrst í Hveragerði 2005 og hefur nánast árvisst síðustu ár valdið talsverðu tjóni á laufi birkis fyrri hluta sumars á suðvesturhorninu.
Skógardagurinn á Mógilsá á morgun, sunnudag, hefst klukkan fjórtán. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnar þá formlega trjásafn á Mógilsá og gróðursettar verða fimmtíu eikur í hlíðinni ofan við rannsóknastöðina. Starfsfólk stöðvarinnar kynnir verk sýn og sýnir ýmsar aðferðir, tæki og tól, pöddur og fleira og fleira. Steiktar verða lummur, hitað ketilkaffi og fleira og fleira. Velkomin að Mógilsá!
Texti: Pétur Halldórsson