Asparryð hefur valdið garðeigendum og skógræktarmönnum vaxandi áhyggjum á
undanförnum árum.  Þessa sjúkdóms varð fyrst vart í Hveragerði og á
Selfossi sumarið 1999 og olli hann þá þegar verulegum skemmdum á trjám.
Sumarið 2000 jókst útbreiðsla sveppsins nokkuð og fannst hann þá bæði neðst
í Grímsnesinu og í Þorlákshöfn.  Auk þess var sjúkdómurinn mun útbreiddari
á Selfossi það sumar en sumarið 1999.  Nú síðast liðið sumar  jókst síðan
útbreiðsla asparryðsins til mikilla muna og má nú heita að hann sé kominn
um alla Árnessýslu og búinn að stinga sér niður í Rangárvallasýslu, á
höfuðborgarsvæðinu og upp í Skorradal.

Á Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá voru þegar hafnar rannsóknir
á þessum sveppasjúkdómi sumarið 1999 í samvinnu við Dr. Halldór Sverrisson,
plöntusjúkdómafræðing á RALA og Dr. Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur,
sveppafræðing á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands.  Árin 2000 og
2001 vann þessi hópur að rannsóknum á þoli mismunandi asparklóna gegn
þessum sjúkdómi.  Niðurstöður þeirra rannsókna benda til þess að hér séu
aðeins fáeinir klónar sem hafi gott þol gegn þessum sjúkdómi. 
Nú er verið að stíga næsta skref í þessum rannsóknum.  Það er að æxla saman
asparklónum sem hafa mikið þol gegn þessum sjúkdómi við við aðra klóna sem
þykja hafa æskilega eiginleika fyrir ræktun.  Nú er lokið við að velja þá
klóna sem munu vera notaðir í þessum tilraunum.  Þeir skiptast í þrjá hópa.

1.  Asparklónar sem tilraunir hafa sýnt að hafa mikið þol gegn asparryði.
Þetta eru klónarnir, Sæland, Haukur og Súla.
2.  Asparklónar sem hafa staðið sig vel í asparklónatilraunum víðs vegar um
land.
3.  Gamlar aspir í görðum í Reykjavík og Hafnarfirði sem hafa vaxið
áfallalaust áratugum saman og hafa einnig æskilegt vaxtarform.

Nú þegar er búið að klippa blómgreinar af allmörgum af þessum klónum og því
verki mun verða lokið innan skamms.  Þessum klónum verður síðan æxlað saman
og það starf er raunar nú þegar hafið.  Fræinu verður síðan sáð í vor og
stefnt er að því að tilraunaplöntur verði tilbúnar næsta vor.  Þær verð þá
gróðursettar í tilraunareiti þar sem þol þeirra gegn ryðinu og aðrir
vaxtareiginleikar verða ákvarðaðir.  Stefnt er að því að fyrstu niðurstöður
þessara rannsókna liggi fyrir árið 2005.  Þá verður væntanlega völ á nýjum
íslenskum asparklónum sem er sérstaklega kynbættar til að hrista af sér
allt ryð.´

Myndin er tekin 5. mars sl. þegar Haukur Ragnarsson, Þórarinn Benedikz (Mógilsá) og Theódór Guðmundsson verkstjóri klipptu blóm af hávaxinni Súlu á Tumastöðum í Fljótshlíð. (Ljósmynd: Sr./ KSG.)