(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Í lok síðasta árs samþykktu Landssamtök skógareigenda fimmtán ára átaksverkefni í akurræktun jólatrjáa.

Innflutningur á jólatrjám hefur verið mikill undanfarin ár og hlutur innlendra jólatrjáa að hámarki einn þriðji af heildarsölu. Til að bregðast við þessu hafa Landssamtök skógareigenda (LSE) ákveðið að hefja stórátak í ræktun jólatrjáa í öllum landshlutum. Hugmyndin er að mynda starfshópa vítt og breitt um landið með áhugasömum einstaklingum sem hyggja á ræktun jólatrjáa. Sá sem hyggur á þátttöku þarf að vera félagsbundinn í félagi  innan LSE. Að lágmarki þurfa að vera 5 ræktendur í hverjum hóp en 12 að hámarki. LSE leggur til uppskrift að jólatrjáaræktun sem nær allt frá upphafsskipulagi að sölu á jólatrjám.  Hver hópur vinnur saman næstu tólf árin og vinnur að sama markmiði, þ.e.a.s. uppbyggingu atvinnugreinar sem þróuð verður með samstilltu átaki þeirra sem hana stunda.

LSE mun standa fyrir árlegum ársfundi jólatrjáaræktenda. Á þeim fundi geta ræktendur borið saman bækur sínar auk þess sem boðið verður uppá fræðslu um ræktun jólatrjáa á þeim fundi.  Leitað verður eftir stuðningi landshlutaverkefna í skógrækt um skipulag ræktunarsvæða, faglegar leiðbeiningar, tilraunir m.a. með kvæmi og uppbyggingu skjóls á ræktunarsvæðinu. Auk þess verður leitað til Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá um leiðbeiningar og rannsóknir og Landbúnaðarháskóla Íslands um fræðslu um jólatrjáaræktun og  hvatningu til nemenda skólans að stunda rannsóknir á skipulagi, ræktun og markaðssetningu jólatrjáa.

Þegar þetta er ritað, þriðjudaginn 15. febrúar, eru Sunnlendingar þeir einu sem farnir eru af stað með átakshóp í ræktun jólatrjáa. Þeir komu saman föstudaginn 11. febrúar s.l. og mynduðu hóp áhugasamra einstaklinga um ræktun jólatrjáa. Hópurinn samanstendur af áhugasömum einstaklingum af 18 jörðum sem munu vinna saman næstu 12 árin og stefna á akurræktun jólatrjáa á jörðum sínum. Reikna má með að fleiri landshlutar taki sig saman á næstunni með sama markmið.

Áætluð lok átaksverkefnis í akurræktun jólatrjáa verða árið 2025 og er gert ráð fyrir að akurræktun jólatrjáa verði þá orðin markviss atvinnugrein í öllum landshlutum. Áhugasamir einstaklingar geta haft samband við formenn í félögum skógareigenda eða við framkvæmdastjóra LSE (bjorn[hjá]sudskogur.is)



Texti: Björn B. Jónsson, framkvæmdastjóri LSE

Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri