Ísólfur Gylfi Pálmason:  Ný og spennandi atvinnutækifæri
(Morgunblaðið, föstudaginn 21. apríl, 2006 - Aðsent efni)

Ísólfur Gylfi Pálmason fjallar um atvinnumál: "Ég skora á landbúnaðarráðherra og iðnaðarráðherra, sem vissulega hafa sýnt þessum málum áhuga, að taka höndum saman og styðja myndarlega við þessa atvinnusköpun í landinu."

Mín fyrsta þingsályktunartillaga, sem ég lagði fram á Alþingi árið 1995 og var samþykkt eftir endurframlagningu á vorþingi 2003, fjallaði um nýtingu trjáviðar sem til fellur við grisjun íslenskra skóga. Mörgum þótti tillagan sérkennileg í fyrstu en staðreyndin er sú að ótrúlega mikið fellur til af trjáviði við grisjun og trjáviðinn höfum ekki nýtt sem skyldi, þó að undantekningar séu á eins og með notkun trjábola í trönur, innréttingar, listmunagerð o.fl. Það er einnig alveg ljóst að með tilkomu landshlutabundnu skógræktarverkefnanna er nauðsynlegt að móta heildstæða stefnu til framtíðar í þessum efnum.

Á tímum þar sem mikið er rætt um álver og loftmengun er skógrækt og viðarnýting svo sannarlega "eitthvað annað" sem kallað er eftir. Verkefnið er í senn spennandi, gefandi og gjaldeyrissparandi. Mjög brýnt er að móta framtíðarstefnu í þessum málum. Í síðustu viku vakti ég enn máls á þessum verkefnum á Alþingi. Svokölluð viðarnýtingarnefnd hefur verið að störfum á Íslandi og hefur unnið þarft verk. Að nefndinni standa fulltrúar frá hinum ýmsu stofnunum og félögum skógræktarinnar og einnig aðili frá BYKO. Það er auðvitað mjög jákvætt að einkafyrirtæki taki einnig þátt í starfi nefndarinnar. Hins vegar er ljóst að nauðsynlegt er að leggja meira fjármagn til þess að þróa þessi mál. Ég hef séð tæki bæði í Svíþjóð og Finnlandi sem eru notuð til þess að höggva tré og fletta af þeim greinum. Þetta gerist allt á örskotsstundu og greinunum er í raun flett af á meðan tréð fellur. Skógrækt ríkisins eða aðrir aðilar þurfa endilega að eignast grisjunartæki sem þessi. Afar merkilegt framtíðarverkefni er í gangi sem nokkrir skólar taka þátt í og heitir "lesið í skóginn". Fjölmargir hugmyndaríkir einstaklingar eru tilbúnir með hugmyndir sem vert er að skoða ofan í kjölinn. Einn þeirra er Guðmundur Magnússon, trésmíðameistari og þúsundþjalasmiður á Flúðum. Hann hefur gert mjög merkilegar tilraunir með að nota íslenskt lerki, ættað frá Síberíu, í húsklæðningar. Hlynur Halldórsson, Miðhúsum, hefur smíðað margan nytjahlutinn úr íslenskum viði svo ekki sé talað um alla þá listmuni sem hann hefur smíðað. Til gamans má t.d. nefna gítar sem hljómar ekki síður en frægu merkin frá Gibson eða Martin.

Félag trérennismiða vekur alltaf athygli þegar það sýnir listmuni sína sem renndir eru úr íslenskum viði. Það þarf oft ekki mikið til þess að skapa atvinnu, skapa gjaldeyri og útfæra skapandi og spennandi störf. Í þessu tilfelli hefur grunnurinn verið lagður. Ég skora á landbúnaðarráðherra og iðnaðarráðherra, sem vissulega hafa sýnt þessum málum áhuga, að taka höndum saman og styðja myndarlega við þessa atvinnusköpun í landinu. Þessi verkefni geta einnig verið einn hlekkurinn í nútíma ferðaþjónustu. Hér er um framtíðaratvinnutækifæri að ræða sem fellur vel að hugmyndafræði þess fólks sem ann náttúrunni og afurðum hennar.

Höfundur er varaþingmaður Framsóknarflokksins.