Skjámynd úr Morgunblaðinu
Skógur eflir allan landbúnað og fáir bændur eru í eins góðri aðstöðu til kolefnisbindingar og íslenskir bændur, segir formaður Landssamtaka skógareigenda í viðtali við Morgunblaðið. Hann hvetur bændur til að hefja skógrækt enda sé hún góð búbót og í henni felist miklir möguleikar.
Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður ræðir við Jóhann Gísla Jóhannsson, formann Landssamtaka skógareigenda. Viðtalið er á þessa leið:
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Landið okkar er skóglítið og því eru Íslendingar í eftirsóknarverðri aðstöðu þegar horft er til möguleika á kolefnisbindingu. Tækifærin eru mörg, bæði til að móta fallegan skóg í landið og ekki síður að stuðla að sjálfbærri viðarnýtingu á Íslandi, segir Jóhann Gísli Jó[han]nsson, bóndi á Breiðavaði á Héraði og formaður Landssamtaka skógareigenda. „Fáir bændur í heiminum eru í eins góðri aðstöðu til kolefnisjöfnunar, því hér á landi er lítið af skógi og nóg land. Íslendingar geta ekki mætt kröfum Parísarsamkomulagsins um bindingu kolefnis, nema með því að auka skógrækt. Og það liggur á, því tré ná mestri bindingu kolefnis um 15 til 20 árum eftir gróðursetningu. Við viljum því hvetja sem allra flesta bændur til þess að hefja skógrækt. Í því felast miklir möguleikar á því að efla auðlindina enn frekar. Skógur eflir allan landbúnað.“
Aukageta og góð búbót
Í sveitum landsins er nytjaskógrækt nú orðin gildur atvinnuvegur, stunduð af um 700 bændum á 500 jörðum í öllum landshlutum. Alls veitir ríkið um 240 milljónum króna á ári til skógræktarverkefna bænda, en gangurinn er sá að jarðvinnsla, slóðagerð, girðingar, plöntur og vinna við gróðursetningu þeirra er greidd af ríkinu. Alls eru framleiddar um 2,7 milljónir skógarplantna á ári sem er úthlutað til bænda eftir því hve stór svæði þeir hafa undir. Misjafnt er svo milli bæja hvernig staðið er að málum, en í flestum tilvikum er skógrækt aukageta en góð búbót.
„Fyrir hrun var liðlega 450 milljónum króna á ári veitt til skógræktarverkefna bænda. Í dag nær framlagið ekki helmingi af því sem var. Af því leiðir að æði misjafnt er milli ára hve mikið er gróðursett, sem í framtíðinni leiðir af sér að framboð af timbri til vinnslu verður takmörkum háð,“ segir Jóhann Gísli. „Menn hafa talað um að árið 2050-2060 geti viðarframleiðsla orðið raunverulegur iðnaður á Íslandi, en þá þurfum við líka að ganga að auðlindinni vísri. Vissulega hafa framlög ríkisins til skógræktar verið aukin hin allra síðustu ár svo allt horfir betur við, en yfir lengri tíma þarf atvinnugreinin jafnvægi. Því hefði ég talið heppilegast að bændur í bændaskógrækt fengju greiðslur eins og greitt er fyrir aðra ræktun.“
Lerki, fura og ösp
Bændaskógrækt á Íslandi hófst um 1990 og þá austur á landi, en þar um slóðir er skógræktarhefðin orðin sterk. Ræktunarverkefni í öðum landshlutum hófst svo um aldamótin og má nefna Suðurlandsskóga í því sambandi.
„Vissulega standa skógarbændur á Austurlandi framar öðrum hvað varðar reynslu og árangur, enda hafa þeir tíu ára forskot. En bilið minnkar með hverju árinu, aðrir landshlutar eru ekki síður vöxtulegir og áhuginn er vaxandi í öllum landshlutum. Félag skógareigenda á Suðurlandi hefur til að mynda vinninginn hvað varðar fjölda félaga. Helsti munur á skógrækt eftir landshlutum er sá að lerki er einkennistré á Austur- og Norðurlandi en furan og grenið annars staðar. Öspin er svo framúrskarandi tré fyrir framræst land sem ekki er í notkun, hefur mikla kolefnisbindingu og timbrið af öpinni nýtist vel. Suðurlandið er til dæmis mjög hentugut fyrir asparrækt,“ segir Jóhann sem hefur stundað skógrækt lengi. Alls er hann með um 50 hektara undir á Breiðavaði, sem er í Eiðaþinghá norðan við Egilsstaði.
Nýtt útlit landsins
Þekkt er úr fræðunum að skógur og gróandi gera sálinni gott og enginn fer heldur í grafgötur um að kolefnisbinding með skógrækt er sterkur krókur á móti bragði í baráttunni gegn hlýnun andrúmsloftsins. En er nægilega gott skipulag á skógræktarstarfinu og því hvar plantað er?
„Skipulagið er gott. Víða má sjá hvernig landið hefur gjörbreyst til batnaðar, þar sem skógur skríður upp um hlíðar og svæði sem áður voru ber. Vissulega er landið mjög víða að fá algjörlega nýtt útlit, en hver segir að svipur þess megi ekki breytast? Svo verður líka að hafa í huga að skógrækt í dag er að stórum hluta endurheimt fyrri landgæða, samanber þá lýsingu Ara fróða að við landnám hafi hér allt verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru,“ segir Jóhann skógarbóndi að síðustu.