Eugene Hendrick hefur verið einn aðalsamningamaður Íra um loftslagsmál gagnvart Evrópusambandinu. Írar leggja ríka áherslu á skógrækt um þessar mundir og að auka skógarþekju landsins, meðal annars til að auka hlut landsins í bindingu kolefnis úr andrúmslofti.
Rætt við írska skógfræðinginn og erindrekann Eugene Hendrick í Bændablaðinu
Þriðjudaginn 5. desember var haldin ráðstefna í Bændahöllinni í Reykjavík um möguleika þess að auka kolefnisbindingu á Íslandi. Að henni stóðu Landgræðsla Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógræktin og Bændasamtök Íslands. Húsfyllir var á ráðstefnunni. Upptökur af öllum erindunum eru nú aðgengilegar á vefsíðunni bondi.is.
Fyrsti frummælandi á ráðstefnunni var Írinn Eugene Hendrick og fjallaði meðal annars um þær aðgerðir sem Írar hafa ráðist í til að binda kolefni með breyttri landnotkun og aukinni skógrækt. Vilmundur Hansen, blaðamaður Bændablaðsins, tók Hendrick tali að ráðstefnunni lokinni. Eugene segir Íra leggja ríka áherslu á skógrækt um þessar mundir og að auka skógarþekju landsins, meðal annars til að auka hlut landsins í bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Rannsóknir sýni að aukin skógrækt, hvort sem hún er á Íslandi eða annars staðar í heiminum, sé ein besta landnýtingaraðferðin til að binda kolefni úr andrúmslofti.
Viðtalið er á þessa leið:
Hendrick, sem er kominn á eftirlaun, er skógfræðingur að mennt og starfaði lengi við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið á Írlandi og bar ábyggð á málefnum sem snerta skógrækt og loftslagsbreytingar. Eitt af verkefnum Hendrick var vinna sem sneri að aðkomu Íra að tillögu Evrópusambandsins til að draga úr magni kolefnis úr andrúmsloftinu.
Markmiðið að draga úr losun um 40%
„Tillaga Evrópusambandsins er tvíþætt. Í fyrsta lagi snýr hún að landnýtingu, breytingum á landnýtingu og skógrækt og hvernig gert er grein fyrir og hvernig ávinningur vegna kolefnisbindingar vegna skógræktar eða annars konar landnýtingu er nýttur. Hins vegar snýr tillagan að því hversu hátt hlutfall bindingarinnar hverrar þjóðar verður í heildarmarkmiði Evrópusambandsins. Í dag er stefnt að því að draga úr losun kolefnis út í andrúmsloftið um 40% frá því sem hún var 2005 fyrir árið 2030.“
Ávinningur skógræktar margþættur
Hendrick segir að hlutverk skógræktar í að binda kolefni úr andrúmslofti sé mikið. „Ávinningurinn með skógrækt er einkum tvíþættur. Með skógrækt er kolefni í andrúmslofti bundið í trjánum og nytjar á skógarafurðum koma að hluta í staðinn fyrr nytjar á jarðefnaeldsneyti og eru ólíkt því endurnýjanlegar þegar nýjum trjám er plantað í stað þeirra sem eru felld. Timbur sem í er bundið kolefni er einnig hægt að nota til dæmis við húsbyggingar og getur komið í staðinn fyrir efnivið eins og stál, ál og steinsteypu, sem er orkufrek í framleiðslu.“
Að sögn Hendrick leggja Írar ríka áherslu á skógrækt um þessar mundir og að auka skógarþekju landsins meðal annars til að auka hlut landsins í bindingu kolefnis úr andrúmslofti.
„Skógrækt á Írlandi hefur dregist saman undanfarin ár og er um 6,5 þúsund hektarar á ári eins og er en markmiðið er að planta út um átta þúsund hekturum af nýjum skógi á ári frá og með 2020.
Ein ástæða þess að dregið hefur úr skógrækt á Írlandi undanfarin ár er að dregið hefur úr kjörlendi til skógræktar vegna skógræktar fyrri ára og önnur er að það er vöxtur í landbúnaði á Írlandi. Tekjur af mjólkur- og kjötframleiðslu eru miklar og hvatinn til skógræktar í staðinn fyrir búfjáreldi minni en áður.“
Hendrick segir að landeigendum á Írlandi sé í sjálfsvald sett hvort þeir breyti landnýtingu sinni yfir í skógrækt en ef þeir kjósi slíkt fái þeir opinberan styrk til að auðvelda þeim framkvæmdina og eftir það greiðslu í fimmtán ár.
„Hugmyndin er meðal annars sú að með því að auka skógrækt sé verið að styrkja atvinnu á landsbyggðinni. Í dag starfa um tólf þúsund manns við skógrækt á Írlandi og sá fjöldi mun líklega aukast eftir því sem nytjar á skógunum verða meiri. Írland flytur enn inn talsvert af timbri en á sama tíma flytjum við einnig talsvert mikið út af borðviði, um 500 þúsund rúmmetra á ári, og megnið af því fer til Englands.“
Kolefnisbinding á Íslandi
Hendrick segist vera að heimsækja Ísland í fjórða sinn og að hann telji að Ísland geti lagt mikið til þegar kemur að því að binda kolefni úr andrúmslofti með réttri landnýtingu.
„Aukin skógrækt er líklega sú aðferð sem skilar mestu því auk þess að binda kolefni í timbri bindur skógurinn einnig kolefni í jarðvegi. Auk þess sem með tímanum gefa skógar af sér margs konar afurðir.
Rannsóknir sýna að aukin skógrækt, hvort sem hún er á Íslandi eða annars staðar í heiminum, er ein besta landnýtingaraðferðin til að binda kolefni úr andrúmslofti. Auðvitað er líka hægt að auka bindingu kolefnis í ræktunarlandi og votlendi með því að draga úr áburðarnotkun og endurheimta votlendi með því að fylla upp í skurði á landi sem ekki er nytjað til landbúnaðar.