Þessi tíu hæða bygging er annað tveggja timburháhýsa sem deila með sér hönnunarverðlaunum og verðlau…
Þessi tíu hæða bygging er annað tveggja timburháhýsa sem deila með sér hönnunarverðlaunum og verðlaunafé upp á 3 milljónir dollara til áframhaldandi hönnunar. Mynd: SHoP Architects

Tvö verkefni hlutu 3 milljónir dollara til áframhaldandi þróunar

Tvö verkefni hlutu á dögunum verðlaun sem veitt eru í Bandaríkjunum fyrir hönnun timburháhýsa. Vinningshafarnir deila með sér verðlaunafé sem nemur þremur milljónum dollara, hartnær 380 milljónum íslenskra króna. Fénu skal varið til áframhaldandi hönnunar og þróunar verðlaunatillagnanna tveggja, háhýsa sem rísa eiga á Manhattan í New York og í Portland í Oregon-ríki. Áskilið var að byggingar sem sendar yrðu inn í keppnina væru að minnsta kosti 24 metra háar og að meginbyggingarefni þeirra væri límtré.

Í stórborgum heimsins standa háhýsi og skýjakljúfar í röðum, að mestu gerð úr stáli og steinsteypu. Ekki er þó víst að þessi byggingarefni séu þau einu sem duga til slíkra mannvirkja. Sýnt hefur verið fram á það á síðustu árum að vel er hægt að reisa að minnsta kosti sjö hæða háhýsi úr timbri. Hátt í tuttugu slíkar byggingar hafa þegar verið reistar í heiminum og hafa hlotið blessun embættismanna, hönnuða, verktaka og íbúðakaupenda. Nú er viðurkennt að háhýsi úr timbri eru ekki síður örugg og endingargóð en önnur og stefnan hefur verið tekin á enn hærri byggingar úr timbri.

Verðlaunin sem hér er um rætt kallast U.S. Tall Wood Building Prize Competition. Þau veitir bandaríska landbúnaðarráðuneytið ásamt tvennum timbursölusamböndum, Softwood Lumber Board og Binational Softwood Lumber Council. Skilyrði til þátttöku í keppninni voru meðal annars þau að húsin væru að mestu leyti reist úr límtré og væru að minnsta kosti 24 metra há. Tvö verkefni deila með sér verðlaununum í ár, tíu hæða blokk í New York og 12 hæða blokk í Portland í Óregon-ríki.

Timburháhýsi á Manhattan

Tíu hæða blokkin sem meiningin er að rísi í New York verður einstök bygging í sinni röð enda fyrsta háhýsið í borginni sem reist verður með nútímalegum aðferðum úr límtré. Þetta verður íbúðabygging og rís í West Chelsea hverfinu á Manhattan. Við hönnunina er byggt á reynslu bæði Kanadamanna og Evrópubúa við gerð slíkra bygginga. Verkfræðingar og hönnuðir byggingarinnar hafa þróað burðarvirki úr timbri sem stenst kröfur um varnir gegn jarðskjálftum. Fimmtán metra langir límtrésbitar bera til dæmis uppi gólfin á hæðum hússins.

Byggingin er kynnt sem sjálfbært lágkolefnisháhýsi. Í límtréð verður notaður viður úr dauðum eða deyjandi trjám sem ella væri eldhætta af úti í skógi. Þetta sama timbur er eldtraust þegar úr því hefur verið framleitt límtré og reist bygging. Límtré er mjög lengi að brenna og heldur styrk sínum vel í eldsvoða. Arkitektastofan SHoP Architects hannar bygginguna í samstarfi við hönnunar- og tæknifyrirtækið Arup, umhverfisráðgjafarfyrirtækið Atelier Ten, ráðgjafarfyrirtækið Icor Consulting Engineers og verktakafyrirtækið Spiritos Properties.


Tólf hæða timburblokk í Portland

Byggingin sem rísa á í Portland verður hins vegar tólf hæðir og á að hýsa bæði skrifstofur og íbúðir. Byggingarfélagið Project stendur að verkefninu ásamt arkitektastofunni LEVER Architecture og fjárfestingarfélaginu Home Forward. Öll eru þessi fyrirtæki í Portland. Húsið á að rísa í hverfinu Pearl District og raunar var þetta verkefni komið af stað áður en aðstandendur þess fréttu af samkeppninni.

Auk íbúða og atvinnuhúsnæðis hefur verið tekið frá rými í byggingunni fyrir sýningu sem helguð verður hönnun og smíði timburbygginga. Sýningin verður opin almenningi. Rétt eins og byggingin í New York verður þessi að miklu leyti úr límtré og meiningin er að límtrésbitar og -einingar fái að sjást á völdum stöðum til að fólk geti séð með berum augum þá möguleika sem þeir bjóða upp á.

Hjálpar til við endurræktun skóga

Kolefnisfótspor timburhúsa er mun minna en stál- og steinsteypubygginga. Vestan hafs sjá menn fyrir sér ýmsan annan ávinning af því að nota timbur sem byggingarefni í stað stáls og steinsteypu. Með meiri notkun viðar skapist tækifæri til endurræktunar skóga í Ameríku sem hafa undanfarin ár þurft að lúta í lægra haldi fyrir skordýrafaröldrum og skógareldum. Nýta megi til að mynda timbur úr trjám sem barkarbjöllur hafa drepið í stað þess að trén bíði þess eins að rotna eða verða skógareldum að bráð. Með því að vinna timbrið og nýta það í húsbyggingar sé tryggt að kolefnið í trjánum varðveitist til langrar framtíðar. Í stað skógarins sem hvarf vex upp nýr og heilbrigður skógur.

Stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir því að reisa stórhýsi úr timbri er að sannfæra fólk um gæði og öryggi slíkra bygginga. Sýna þarf fram á að timburháhýsi fuðri ekki upp í eldi, að þau þoli veður og vinda en líka jarðskjálfta og jafnframt að þau séu hagkvæm í rekstri og nýti orkuna vel. Ekki duga útreikningar einir eða staðhæfingar verkfræðinga og hönnuða. Þess vegna er nauðsynlegt að reisa tilraunahús og til þess að ýta undir það var stofnað til umræddrar verðlaunasamkeppni vestra. Tilgangurinn er þó ekki síður að ýta undir viðarframleiðslu í Bandaríkjunum og fjölgun starfa í skógrækt og viðarvinnslu.

Vel er við hæfi að eitt fyrsta timburháhýsið í Bandaríkjunum rísi í New York borg sem hefur verið í fararbroddi í þéttbýlisþróun talsvert á aðra öld. Til þess er litið að timburhús af þessum toga séu orkusparandi og þau geti jafnframt reynst ódýrari í byggingu en hefðbundin háhýsi. Aukin viðarnotkun styðji jafnframt við viðkvæmar byggðir á dreifbýlum svæðum. Síðast en síst er því spáð að fólk muni falla fyrir útliti timburbygginganna og til þess verði tekið hvað þau séu þægileg íveru.

Heimildir

Texti: Pétur Halldórsson