Myndun lífmassa 120 tonn á hektara

Tré hitabeltisskóga sem vaxa á ný á beitilandi eða á landi sem búið hefur verið undir jarðrækt með skógarhöggi bæði vaxa mjög hratt og taka til sín miklu meiri koltvísýring en tré eldri skóga. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem birtar eru í nýjasta tímariti vísindaritsins Nature og Ríkisútvarpðið sagði frá.

Fréttin er á þessa leið:

Á aðeins tveimur áratugum náðu nýir hitabeltisskógar í Suður-Ameríku að byggja upp 120 tonna lífmassa á hektara, auk þess sem þeir tóku þrjú tonn af koltvísýringi á hektara úr andrúmsloftinu á hverju ári. Það er ellefufalt á við koltvísýrings-upptöku eldri skóga að sögn vísindamannanna á bak við rannsóknina.

Fjöldi vísindamanna fylgdist með vexti trjáa á um 1.500 jarðskikum og 45 svæðum víða í Suður-Ameríku. Gögnin notuðu þeir til þess að reikna út mögulega uppbyggingu lífmassa eftir svæðum. Að sögn vísindamannanna geta stjórnvöld nýtt þær upplýsingar til þess að merkja þau svæði sem ákjósanlegt er að vernda fyrir skógarhöggi.

Skógar eru helsta vörn mannkyns gegn loftslagsbreytingum. Þeir soga til sín um 30 prósent alls koltvísýrings sem menn senda í andrúmsloftið.

Skógarhögg hefur tvöföld áhrif á losun koltvísýrings. Bæði losnar koltvísýringurinn sem trén geyma þegar þau eru felld, og færri tré eru til þess að taka við honum. Um fimmtungur alls skóglendis Amason-regnskógarins, þess stærsta í heiminum, hefur orðið skógarhöggi að bráð.

Yfir helmingur frumskóga heimsins er nýlega endursprottinn á svæðum þar sem tré voru felld til þess að koma að beitilandi og jarðrækt.