Atvinnu-og mannlífssýningin Austurland 2004 verður haldin í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum dagana 10. - 13. júní nk. Sýnendur eru fjölmargir og gefa góðan þverskurð af því sem um er að vera í fjórðungnum á hinum ýmsu sviðum. Skógræktendur og aðilar sem þá þjónusta láta ekki sitt eftir liggja. Austurlandsskógar, Héraðsskógar, Félag skógarbænda á Héraði, Félag skógarbænda á Austurlandi og gróðrarstöðvarnar Barri og Sólskógar hafa sameinast um sýningaraðstöðu þar sem starfsemi þessara aðila verður kynnt með ýmsum hætti. Þar kynna Austurlandsskógar og Héraðsskógar m.a. námskeiðsröðina Grænni skógar sem er mjög áhugaverð fyrir skógarbændur sem og þá sem hyggja á skógrækt. Verið er að leggja lokahönd á gagnagrunn í skógrækt - svokallaða Grænsíðu - og verður frumgerð grunnsins sýnd á sýningunni. Vonast sýnendur til að sjá sem flesta skógarbændur og áhugamenn um skógrækt á sýningunni.