Nú hafa bændur undir Vestur Eyjafjöllum sleppt sauðfé á afréttinn Almenninga. Nokkur umræða hefur verið um girðingar sem Skógræktin fjarlægði sumarið og haustið 1991. Því hefur verið haldið fram að skógræktarmenn hafi rifið upp heillegar girðingar og skilið eftir netrúllur út um alla Þórsmörk. Af þessu tilefni taldi undirritaður rétt að skrifa nokkur orð um hið merkilega starf sem unnið var áratugum saman við beitarfriðun Þórsmerkur og Goðalands.

Friðun Þórsmerkur og Goðalands

Umsjónarsvæði Skógræktar ríkisins á Þórsmörk og Goðalandi hafa verið beitarfriðuð eftir að tókst að girða svæðið af árið 1924. Var hafist handa við uppsetningu girðinga fljótlega eftir að samningar um beitarfriðun Þórsmerkur voru gerðir við bændur í Fljótshlíð árið 1919. Samhliða var samið við Oddakirkju um friðun Þórsmerkur en kirkjan átti beitarrétt og skógarítak í Þórsmörk. Breiðabólstaðarkirkja samdi einnig við Skógræktina um friðum Goðalands árið 1927. Á þeim tíma voru um 200 ha af kjarrlendi eftir á Þórsmörk og Goðalandi og aska þakti svæðið eftir Kötlugosið 1918. Voru birkiskógarnir gisnir, lágvaxnir og í mörgum tilfellum voru birkitorfurnar umkringdar rofabörðum og moldum sem blésu upp í þurrviðrum.

Mörkin girt af

Girðingarnar voru í upphafi gaddavírsgirðingar sem gerðar voru af vanefnum og var notast við það efni sem fáanlegt var í staura og má þar nefna gamla járnbrautarteina líklega úr járnbrautinni sem lögð var úr Öskjuhlíð að Reykjavíkurhöfn árið 1913. Var girðingarefni flutt úr Reykjavík með bílum eins langt og vegir náðu í Fljótshlíð. Þaðan var efnið ferjað yfir Markarfljót inn á Þórsmörk með hestum og unnu heimamenn aðallega bændur úr Fljótsdal og nálægum bæjum verkið. Lá skógræktargirðingin á Þórsmörk frá Hvanngili í suðri, yfir Valahnúk, norður úr um mynni Húsadals, inn Hamraskóga, austur Svínatungur og austur í Rjúpnafellsgil. Renna var sett á girðinguna með hamrabrúnum Markarfljóts í gegn um Hamraskóga og var sú viðbót gerð á girðinguna árið 1944 til að koma í veg fyrir að bændur „misstu“ fé inn á Þórsmörk þegar þeir ráku á Almenninga á vorin. Auk ofannefndrar girðingar voru girðingarstubbar settir í Mógil og fleiri gil á svæðinu, til að freista þess koma í veg fyrir að fé kæmist á Mörkina. Var girðingarstæðið afar erfitt og mikill kostnaður sem fólst í uppsetningu og viðhaldi girðinga, bæði vegna snjóþyngsla og jökulánna sem eyðilögðu girðingarnar bæði sumar og vetur. Langir kaflar á áraurum t.d. Krossár, Hvannár og Tindfjallagils voru teknir upp á haustin og girtir upp hvert vor. Girðingar voru endurnýjaðar að miklu leyti árin 1960-1965 og árið 1985 var 700 m kafli endurnýjaður efst í Svínatungum rétt við Rjúpnafell.

Girðingarviðhald

Ítarlegar lýsingar á girðingarviðhaldi og smölun má finna í gömlum ársskýrslum skógarvarðarins á Suðurlandi allt frá 1919 til 1990. Þar má lesa að mikil vinna fór fram ár hvert við viðhald og smölun á fé sem slapp inn í gegnum girðinguna enda var allt of margt fé sett inn á Almenninga, lítinn og  gróðursnauðan afrétt Vestur Eyfellinga. Fé var einnig á afréttunum sunnan við Þórsmörk, Merkurtungum, Stakkholti og Steinsholti og rann þaðan iðulega yfir Krossáraura inn á Þórsmörk. Ástand girðinga var oft bágborið og fann hagvant fé sér því oft leið í gegn um girðingarnar. Í skýrslum stendur ennfremur að á mörgum stöðum  hafi beinlínis verið fé sleppt í Þórsmörk, hlið opnuð, girðingar lagðar niður eða klipptar í sundur af mannavöldum. Ástand girðinga var orðið bágborið árið 1984 og skrifar þ.v. skógarvörður Böðvar Guðmundsson þá í ársskýrslu sína um girðinguna frá Tindfjallagili að Rjúpnafellsgili: ,, Þarna stendur girðingin að mestu á móklöpp og hefur vindur sorfið klöppina svo mjög að hátt er orðið undir girðinguna. Staurar flestir orðnir ryðbrunnir, enda gamlir ,,járnbrautarteinar“ og net og gaddavír orðið svo stökkt af ryði að ekki er lengur hægt að snúa á vír“. Áfram skrifar Böðvar: ,,Hitt er svo annað mál, að ævinlega er fé rekið á Mörkina, og ýmist hleypt inn um hlið eða klippt á girðingar eða þeim lyft upp eins og gert var síðastliðið sumar langt inn á Svínatungum. Vafasamt er að bændur er þetta gera virði meira nýjar girðingar en gamlar og spurning hvort þýði nokkuð að hafa girðingar þarna.“

Friðun afrétta árið 1990

Fleiri hundruð fjár var smalað af Þórsmörk flest ár fram undir 1990 og sem dæmi má nefna að í kring um 1980 þegar hvað flest fé var rekið á Almenninga komu 300 fjár af Almenningum í haustsmölun og 1700 af Þórsmörk og Goðalandi. Það var ekki fyrr en með samningum Landgræðslu ríkisins við upprekstrarhafa á Almenninga, Merkurtungur, Steinsholt og Stakkholt árið 1990 og með girðingu sem girt var úr Gígjökli út í Markarfljót að fjárbeit hætti á öllu Þórsmerkursvæðinu. Í kjölfar samninganna reif Skógræktin upp gömlu girðingarnar sem voru að mestu leyti handónýtar og þótti það sóun á fjármunum almennings að reyna að halda þeirri girðingu við meðan á friðun stæði. Örfáar girðingarrúllur urðu eftir í giljum í Hamraskógi og er það handvömm sem bætt verður úr.

Útbreiðsla skóga eftir friðun og uppgræðsluaðgerðir

Þrátt fyrir að skógar hafi verið í sókn allt frá því fyrstu girðingar voru reistar sótti skógurinn lítið út fyrir næsta nágrenni skógartorfanna enda var birkinýgræðingur nagaður niður flest árin. Enn voru opnar moldir og skriður víða um Þórsmörk en mikið átak fór í gang upp úr 1990 í samstarfi Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og ungliðahreyfingar Rauða Krossins. Var þá borið á moldir og skriður, land grætt upp og sáði birkiskógurinn sér út yfir þau svæði. Ýmsir hópar sjálfboðaliða hafa unnið sambærilegt starf á síðustu áratugum og tekið afmörkuð svæði í fóstur með góðum árangri. Ber að þakka það góða og óeigingjarna starf. Eftir að alger beitarfriðun var orðin á svæðinu hefur skógurinn dreifst út yfir stór svæði bæði á Þórsmörk og Goðalandi. Skógurinn hefur hækkað og þéttst og eru hæstu trén á svæðinu nú orðin hærri en 10 m. Birkið hefur einnig sáð sér út á Almenningum, í Stakkholti og fram á Steinsholt, en á þeim afréttum sást varla birki fyrir friðunina nema í stöku birkitorfum á Almenningum. Í dag eru skógar og nýgræður komnar úr 200 ha í rúmlega 1500 ha svæði stök tré finnast einnig á mun stærra svæði.

Upprekstur á Almenninga

Ljóst er að eftir að fé hefur verið sleppt að nýju á Almenninga mun það hægja á framvindu birkiskóga á svæðinu en fé sækir sér í lagi í nýgræðing þ.á.m. smáplöntur af birki. Ef áframhald verður á upprekstri bænda á næstu árum er ljóst að girða þarf Þórsmörkina af að norðanverðu. Stofnkostnaður við slíka girðingu kostar skattgreiðendur 8-10 milljónir kr. og auk þess þarf af fenginni reynslu að smala Þórsmörk og Goðaland á næstu árum með ærnum tilkostnaði, enda hefur reynst erfitt að halda girðingum í lagi sér í lagi á jökuláraurunum. Bændur byggðu afkomu sína á sauðfjárrækt áður fyrr og var afréttarbeit þeim mikilvæg, en fé hefur fækkað og flestir bændur eiga í dag nægt beitiland og öllum ljóst sem til þekkja að uppreksturinn á Almenninga hefur ekkert með skort á beitilandi að gera, heldur snýst málið um að tryggja þann upprekstrarrétt sem bændum undir Vestur-Eyjafjöllum var dæmdur af Hæstarétti árið 2007. Sú aðferð að reka fé á fjall er þó ekki eina aðferðin sem afréttarhafar annarsstaðar á Suðurlandi hafa beitt til að tryggja upprekstrarrétt. Bændur í Holta og Landsveit ákváðu fyrir rúmum 30 árum að hætta beit á Veiðivatnasvæðinu. Þeir hafa þó viðhaldið sínum upprekstrarrétti með því að smala landið að hausti í leit að flökkukindum. Þá aðferð mætti að mínu mati nota á Almenningum. Stjórnvöld gróðurverndarmála buðu upprekstrarhöfum á Almenninga í vor samkomulag um  áframhaldandi beitarfriðun, sem tryggði þeim staðfestingu á því að þeir væru ekki að sýna þessum réttindum sínum tómlæti. Því samkomulagi var alfarið hafnað af bændum undir Vestur Eyjafjöllum, nánast án umræðna um samkomulagið.

Brýnt að halda áfram beitarfriðun

Það skal tekið fram að Skógrækt ríkisins hefur engin völd á afrétti Vestur Eyfellinga Almenningum, hins vegar geta skógræktarmenn sem og aðrir haft skoðun á þegar fé er beitt á birkiskóga sem eru í mikilli útbreiðslu og þykir sýnt að beitin mun hefta mjög útbreiðslu þeirra. Bændur undir Vestur Eyjafjöllum hafa staðið sig vel í uppgræðslu á Almenningu síðustu 20 árin með dyggum fjárhagslegum stuðningi Landgræðslu ríkisins og breytt örfoka svæðum í nýgræður af birki, víði og öðrum gróðri. Það eru þó stór svæði ógróin á afréttinum og var landið talið óbeitarhæft í nýlegri úttekt Landbúnaðarháskóla Íslands, en þar vóg þungt það öskufok sem var vegna Eyjafjallajökulsgossins árið 2010. Almenningar eru ólíkir flestum afréttum á hálendi Suðurlands, þar er birki að sá sér út og mun breyta landinu í skóg á næstu áratugum fái landið frið fyrir beit. Gróðurfar Almenninga er í raun afskaplega líkt og var á Þórsmörk fyrir miðja 20. öldina. Nú er einstakt tækifæri fyrir upprekstrarhafa og aðra sveitunga þeirra að halda áfram beitarfriðun og gefa birkinýgræðingnum tækifæri til að breiðast út yfir afréttinn og spilla ekki því góða starfi sem þeir hafa sjálfir unnið. Birkiskógar hafa á síðustu árum sáð sér upp fyrir 500 m hæð og munu ná að klæða stóran hluta Almenninga sé samhliða unnið að uppgræðslu svæðisins, sér í lagi norðan til. Skógi vaxið land þolir betur öskufall úr nálægum eldfjöllum og mun verða betra beitiland til framtíðar.

Hreinn Óskarsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi

  

30082012_1

Uppblásin birkitorfa utan girðingar vestast á Svínatungum. (Hrafn Óskarsson 1982)

30082012_5

30082012_3

Mynd tekin af svæðinu norðan við hliðið í Hamraskógum 1991 og á sama stað árið 2012. Í millitíðinni hefur birkið sáð sér út yfir snöggbitið graslendið. Moldir á Kápu á Almenningum sjást í baksýn.

30082012_2

30082012_4

Skógargirðingin í Hamraskógum 1991 rétt eftir beitarfriðun og árið 2012. Þó skógar séu ólaufgaðir á eldri myndinni sést hversu mikið skógar hafa sáð sér í eyðurnar.