Í góðviðrinu á sunnudaginn iðaði skógurinn ofan við Rannsóknastöðina á Mógilsá af mannlífi. Þegar nánar var að gáð kom í ljós að hér var á ferðinni fólk við berjatínslu. Ekki var fólkið þó að tína þær tegundir berja sem Íslendingar hafa vanist að leggja sér til munns um aldir (svo sem bláber, krækiber eða hrútaber) heldur kom í ljós að fólkið var að lesa ber af hindberjarunnum. Hindber (Rubus idaeus L.) er stórvaxinn ættingi hrútaberjaklungurs og hefur náttúrlega útbreiðslu um mestallt norðurhvel jarðar, en hefur ekki náð að nema land á Íslandi fyrr en með ræktun á síðustu áratugum.

Hindberjarunnar vaxa nú á tæplega hálfs hektara svæði á Mógilsá, að mestu undir laufþaki tæplega 40 ára gamals birkiskógar. Nær hann að mynda þar tæplega mannhæðarhátt, þétt runnalag. Hindberjarunnarnir hafa breiðst ört út um skógarbotninn með rótarskotum og jarðrenglum en einnig eru þekkt dæmi um sjálfsánar hindberjaplöntur. Að sögn Þórarins Benedikz er saga hindberjanna orðin aldafjórðungslöng á Mógilsá. Hann gróðursetti sjálfur tíu plöntur á þessum stað árið 1981 og voru þær plöntur ættaðar úr Þrændalögum í Noregi. Hafa þær breiðst út mikið síðan. Tæpum tíu árum síðar, eða árið 1991, varð fyrst vart við umtalsverða berjasprettu og náðu berin þá góðum þroska. Frá þeim tíma hafa hindber náð fullum þroska í flestum árum, einkum í hlýju árferði.

Ættingi hindberjanna, laxaber (Rubus spectabilis Pursh) náði að þroska ber strax um mitt sumar á a.m.k. einum stað á Reykjavíkursvæðinu, í s.k. ?Svartaskógi? í Fossvogsstöðinni. Laxaber er búið að vera í ræktun hér á landi frá lokum síðari heimstyrjaldar, en fá dæmi eru um berjaþroska fyrr en nú.

Hindberjarunni með þroskuðum berjum (af vefnum ?Den virtuella floran?)

Haukur Þórólfsson og Sigríður Hjálmarsdóttir voru nýbyrjuð að safna hindberjum þegar myndin var tekin.

Flest berin voru orðin rauð og þroskuð.

Erla Sigurjónsdóttir og Sigurður Einarsson tóku sér hlé frá berjatínslunni til þess að sitja fyrir á mynd, ásamt uppskerunni.

Þroskuð laxaber í Fossvogsstöðinni þann 18. júlí s.l.

Myndir og texti: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Krækjur með ítarefni:

Hindber (Rubus idaeus L.)

http://linnaeus.nrm.se/flora/di/rosa/rubus/rubuida.html

Laxaber (Rubus spectabilis Pursh)

http://www.wsdot.wa.gov/environment/culres/ethbot/q-s/RubusSpec.htm

http://www.cnr.vt.edu/dendro/dendrology/syllabus/factsheet.cfm?ID=253