Fyrstu „íslensku“ beykifræin (Mynd: Árni Þórólfsson)

Íslenskt loftslag hefur löngum takmarkað vaxtarmöguleika og fjölbreytni trjátegunda á Íslandi. Með hlýnandi veðurfari undanfarinn áratug hefur þó vænkast hagur margra hitakærari tegunda og þar með aukist möguleikar landsmanna til að rækta fleiri innfluttar trjátegundir. Ein þessara tegunda er beyki (Fagus sylvatica L.) sem vaxið hefur til í einstaka garði á höfuðborgarsvæðinu og e.t.v. víðar um land, en til þessa ekki verið talin líkleg til stórræða í íslenskri trjá- og skógrækt.

Í Hellisgerði í Hafnarfirði er að finna fjögur gömul beykitré sem vaxið hafa vel hin síðari ár og eru að ná 10 m há. Hafa þau einkum vaxið vel á síðari árum. Talið er nær öruggt að þau hafi verið gróðursett af Ingvari Gunnarssyni, kennara og fyrsta formanns Skógræktarfélags Hafnfirðinga.  Hann var umsjónarmaður garðsins á árunum 1926-1939 og gróðursetti þar ýmsar innfluttar trjátegundir. Líklegt er að beykitrén hafi verið gróðursett á árunum 1927-32 og hafi komið frá Danmörku í gegnum Einar Helgason, garðyrkjuráðunaut hjá Búnaðarfélagi Íslands og einn frumkvöðla íslenskrar garðyrkju. Það má því ætla að liðin séu 75-80 ár frá gróðursetningu beykitrjánna í Hellisgerði.

Nýlega voru nokkrir félagar úr Skógræktarfélagi Hafnfirðinga (Árni Þórólfsson, Gunnar Þórólfsson og Þorkell Þorkelsson) á ferð í Hellisgerði og tóku þeir eftir að eitt þessara trjáa hafði borið fræ á þessu hausti. Flest fræjanna höfðu þegar fallið úr fræhylkjunum þegar hér var komið við sögu, en engu að síður náðu þeir 38 hnetum. Engin fylling var í fræjunum sem líklega stafar af því að vantað hafi beykifrjó í loftið. Er þetta alltént merkur áfangi í íslenskri trjáræktarsögu, því ekki er vitað til þess að þessi trjátegund hafi fyrr borið fræ í ræktunarsögu sinni á Íslandi.

Ítarefni: Jónatan Garðarsson. 2004. Hellisgerði (Í: „Lækurinn“ Riti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar), bls. 10-12

 

 Beykiskógur í Evrópu, að vorlagi (höf. ókunnur)

 

Eitt beykitrjánna í Hellisgerði (mynd: Árni Þórólfsson)

 

Beykitréð í Hellisgerði sem bar fræin (mynd: Árni Þórólfsson)