Við þurfum öll að bretta upp ermar og grípa til aðgerða
Rachel Kyte, aðstoðarforstjóri Alþjóðabankans og sérstakur sendifulltrúi bankans um loftslagsbreytingar, ávarpaði ráðstefnu um landnýtingu, Global Landscapes Forum, sem haldin var samhliða nýafstöðnum loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Lima í Perú. Hún telur mikla möguleika vera á landnýtingarsviðinu til að draga úr útblæstri koltvísýrings, meðal annars með skógrækt og loftslagsvænum aðferðum í landbúnaði. Sagt er frá þessu í frétt á vef Alþjóðabankans.
Eins og kunnugt er af fréttum var sett fram á fundinum í Lima uppkast að nýju framtíðarfyrirkomulagi í loftslagsmálum. Ekki gekk þrautalaust að komast að sameiginlegri niðurstöðu um uppkastið en þó var ákveðið að öll ríki heims skyldu setja sér markmið um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og upplýsa skrifstofu Loftslagssamnings S.þ. um þessi markmið sín á næsta ári. Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður 30. nóvember til 11. desember í París er stefnt að því að ríki heims undirriti samkomulag sem skuldbindi þau til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofts. Samkomulagið verði arftaki Kyoto-bókunarinnar sem undirrituð var 1997.
Í ávarpi sínu á Global Landscapes Forum benti Rachel Kyte á að til þess að mannkynið gæti náð tökum á loftslagsbreytingunum og komið í veg fyrir að meðalhiti á jörðinni hækkaði um meira en 2°C yrði að hefjast strax handa við að minnka útblástur og áður en öldin væri úti þyrfti nettólosun koltvísýrings að vera komin í jafnvægi við bindinguna, að ekki væri losað meira af koltvísýringi en það sem binst aftur jafnóðum.
Þessum markmiðum er ekki hægt að ná nema við höfum heilbrigða skóga og jarðveg þar sem kolefni binst með náttúrlegum hætti, segir Rachel Kyte. Þetta sé heldur ekki mögulegt nema mannkynið tileinki sér landnýtingaraðferðir sem séu loftslaginu í hag og leiði til þess að kolefnið bindist í náttúrunni.
Samanlagt má rekja um fjórðung kolefnislosunar okkar mannanna til landbúnaðar, skógarnytja og annarrar landnotkunar að því er fram kemur í loftslagsskýrslum Sameinuðu þjóðanna. Landnotkun er þess vegna snar þáttur í kolefnislosuninni en á sama hátt getur hún verið snar þáttur í kolefnisbindingu, eins og Rachel Kyte benti á í ávarpi sínu. Með skynsamlegri landnýtingu má binda mikið kolefni í landbúnaðarlandi og skógum og stuðla þannig að lækkandi nettólosun koltvísýrings á jörðinni.
Höfundar skýrslu IPCC, milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, telja að ná megi miklum árangri með breyttum aðferðum við landnýtingu, meðal annas með því að draga úr skógareyðingu, vernda náttúrlegt skóglendi, græða aftur upp skóga sem hafa horfið og rækta nýja. Einnig sé mikilvægt að innleiða nýjar og betri aðferðir í landbúnaði, til dæmis í hrísgrjónarækt, stuðla að breyttum matarvenjum fólks og draga úr þeirri gífurlegu sóun á matvælum sem viðgengst í heiminum. Þannig sé mögulegt að draga stórlega úr þeirri losun sem hlýst af landnýtingu og þoka okkur nær því markmiði að nettólosunin sé engin.
Sérfræðingar í landbúnaðarmálum, skógræktarmálum og landskipulagsmálum ræddu þessi mál á lokadögum loftslagsfundarins í Lima og veltu fyrir sér tiltækum lausnum. Þetta var í annað sinn sem landbúnaðar- og skógarmál voru rædd á sameiginlegri ráðstefnu, Global Landscapes Forum, en fram að því höfðu verið haldnar aðskildar ráðstefnur um þessa tvo málaflokka samhliða loftslagsfundum S.þ.
Svo var að skilja á aðstoðarforstjóra Alþjóðabankans, Rachel Kyte, að hún teldi hreyfingu vera komna á landnýtingarmálin þótt þeim væri enn ekki nægur gaumur gefinn á efstu stigum loftslagsumræðunnar. Gera yrði forystufólki í þessari umræðu ljóst hversu miklir möguleikarnir væru á landnýtingarsviðinu til að draga úr útblæstri koltvísýrings, meðal annars með skógrækt og loftslagsvænum aðferðum í landbúnaði.
Sjálfbærni í skógrækt og sjálfbær landnýting eru fyrirbæri sem ekki hefur verið unnið að með heildstæðum hætti hingað til, segir Rachel Kyte. Sjaldan hafi þessi málefni verið krufin sameiginlega með það að markmiði að draga upp skýra heildarmynd. Slík óskilvirkni og hægagangur dugi ekki á tímum hraðra loftslagsbreytinga. Nú þurfi hraðar og markvissar aðgerðir.
Rachel Kyte segir að styrkur Alþjóðabankans séu þau fjölbreyttu tól sem bankinn hafi til að styðja við breytta landnýtingu. Styrkja megi undirstöður stjórnsýslu og stofnana, fjárfesta í þróunarverkefnum og leggja fjárhagslegan grundvöll fyrir frumkvöðlastarf að verkefnum sem stuðla að minni losun koltvísýrings. Til að mæta vaxandi þörf segir hún að Alþjóðabankinn vinni nú að samræmdri stefnu um fjármögnun skógarverkefna svo bankinn geti veitt heildstæðan stuðning þeim ríkjum sem vilja innleiða skógræktarverkefni í landbótaáætlanir sínar.
Rachel Kyte tekur dæmi frá Mexíkó þar sem Alþjóðabankinn (World Bank Group) hefur tekið höndum saman með skógarfjárfestingaráætlun loftslagsþróunarsjóðsins Climate Investment Funds ásamt fjölþjóðlegu verkefni um sjálfbæra skóga, PROFOR. Sameiginlega hafa þessir aðilar lagt til 350 milljónir Bandaríkjadollara í verkefni þar sem unnið er að því að samhæfa starf og aðferðir ríkisskógræktarinnar og landshlutastofnana sem sinna byggðaþróun og landbúnaðarmálum. Þetta er gert til að koma í veg fyrir árekstra og átök en líka til að stuðla að því að dreifbýlissamfélög geti gert svæðisbundnar áætlanir um landnotkun og skipulagt sjálfbærar efnahagsaðgerðir í anda REDD+, verkefnis Sameinuðu þjóðanna gegn skógareyðingu. Í þessu efni er hvatning að þegar settu marki um að stöðva skógareyðingu hefur verið náð er möguleiki á greðislum úr sérstökum sjóði, Forest Carbon Partnership Facility, sem styrkir þróunarríki til skógverndar.
Í lok ávarps síns sagði Rachel Kyte löngu vitað að með því að draga úr skógareyðingu og rækta nýja skóga væri hægt að draga úr nettólosun koltvísýrings. Afl náttúrunnar til kolefnisbindingar gæti hjálpað okkur til að ná markmiðinu um kolefnishlutlaust líf. Fjárfestingar í kolefnishagstæðum landnýtingarverkefnum gætu stuðla að aukinni náttúrlegri bindingu koltvísýrings en um leið aukið framleiðni og eflt varnarþróttinn gegn loftslagsbreytingum. Nú þyrftum við öll að bretta upp ermar og grípa til aðgerða.