BS-neminn Nandini Hannak tekur kjarnasýni úr reyniviði í Ranaskógi Fljótsdal. Árhringjarannsóknir hennar og leiðbeinandans, Ólafs Eggertssonar, á gömlu birki- og reynitrjánum í Ranaskógi gefur áhugverðar niðurstöður um samhengi hita og úrkomu við árhringjabreidd trjánna en einnig upplýsingar um hvenær á vaxtartíma hvorrar tegundar um sig úrkoma og hitafar hefur mest áhrif á vöxt. Ljósmynd: Ólafur Eggertsson
Árhringjavöxtur var sambærilegur síðastliðna öld í birki og reynvið í Ranaskógi Fljótsdal. Nokkur munur er þó á því hvenær tegundirnar bregðast við úrkomu og hita. Hitinn ræður meiru um ársvöxt reyniviðar en birkis. Þetta er meðal niðurstaðna í nýju BS-verkefni.
Verkefnið vann Nandini Hannak við háskólann um sjálfbæra þróun í Eberswalde í Þýskalandi, Hochschule für nachhaltige Entwicklung. Aðalleiðbeinandi var dr Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Í útdrætti er tíundað að Ísland liggi nærri norðurheimskautsbaug, nyrst á því belti sem trjávöxtur sé mögulegur. Svo norðarlega hafi ólífrænir þættir eins og loftslag meiri þýðingu fyrir trjávöxt en sunnar á hnettinum. Áhrif loftslagsins eru skráð í breidd trjáhringja í stofnum trjánna og eru því til marks um loftslag á hverjum tíma.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhringjavöxt tveggja trjátegunda, reyniviðar (Sorbus aucuparia) og ilmbjarkar (Betula pubescens) í Ranaskógi í Fljótsdal, í því skyni að meta samsvörun trjávaxtar og loftslags undanfarna öld. Ranaskógur er nokkru innar í dalnum en Hallormsstaðaskógur og þar er að finna mörg gömul tré af bæði birki og reyniviði. Elstu birkitrén eru til að mynda komin hátt á aðra öld. Þarna er því góður vettvangur til að taka sýni úr nægilega mörgum trjám til að afla áreiðanlegra sýna og fá traust meðaltöl.
Kjarnaborsýni voru tekin í Ranaskógi í september 2018 þegar höfundur dvaldi á Íslandi sem starfsnemi hjá Skógræktinni. Með sýnunum var búið til tímatal eða tímalína út frá annars vegar meðalbreidd hvers árhrings þeirra trjáa sem sýni voru tekin úr (tree ring width chronology, TRW). Hins vegar fékkst svokallað staðlað árhringjatímatal (standardised tree ring index, TRI) þar sem ýmis leitni eða frávik í gögnunum eru þurrkuð út. Við stöðlun árhringjabreidda er svokölluð aldurskúrfa tekin út (breiðari árhringir í upphafi sem verða mjórri með aldrinum). Einnig er millimetragildi tekið út þannig að öll tré hafi sama vægi í meðalkúrfunni. Annars hefðu tré með með hærra meðaltal árhringjabreiddar meira vægi í meðaltalinu en t.d. tré sem vaxa af einhverjum ástæðum hægar, t.d. þar sem skógur er þéttari.
Þetta tvenns konar tímatal sem hér var lýst var unnið fyrir báðar tegundirnar, birki og reyni. Til að finna út tengsl loftslags og vaxtar voru tímalínurnar greindar tölfræðilega ásamt meðalhita og úrkomu hvers mánaðar. Notast var við tölfræðihugbúnaðinn COFECHA, töflureikninn Microsoft Office Excel og tölfræðiforritið R Studio.
Rannsóknin sýndi að síðustu öldina var árhringjavöxtur sambærilegur í birki og reynvið í Ranaskógi. Hins vegar kom í ljós að hitafar hefur mest áhrif á vöxt birkis í júní og júlí en áhrif úrkomunnar eru mest á birkivöxtinn í maí. Hjá reyniviði skiptir hitafarið mestu máli fyrir vöxtinn í júlí og ágúst en áhrif úrkomunnar eru mest á reynivöxtinn í júní. Vöxtur áhringja í reyni ræðst meira af hitafari á vaxtartímanum en áhringjavöxtur birkis. Áhugasamir geta glöggvað sig betur á þessari rannsókn með því að lesa BS-ritgerðina. Einnig kom út stutt grein um rannsóknina í Riti Mógilsár með efni frá Fagráðstefnu skógræktar 2019. Hlekkur er á hvort tveggja hér að neðan ásamt glærum frá fyrirlestri sem fluttur var á Fagráðstefnunni.